145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins út af nokkrum atriðum, sér í lagi stöðu fangelsismála þegar litið er til fjármagns. Ég vil taka það fram, og það er mönnum kunnugt og þingheimi ljóst, að fangelsismál hafa í mjög langan tíma búið við þröngan kost fjárhagslega. Það hefur verið, að ég hygg, viðvarandi vandamál áratugum saman að það hefur verið töluvert átak að fá nægilegt fé inn í þennan málaflokk.

Byggingaráformin eru angi af því, en það er ákveðin birtingarmynd þess hversu fjárveitingavaldið og kannski kerfið er fljótt að ýta til hliðar þeim nauðsynlegu fjárfestingum sem þarf þegar að þessum málaflokki kemur. Mér finnst við eigum að taka það alvarlega. Það á að sjálfsögðu líka við um rekstur málanna, af því að auðvitað skiptir mestu máli að kerfið sjálft virki og að við náum því takmarki okkar að draga úr endurkomu og að koma mönnum út í þjóðfélagið aftur sem gegnum þjóðfélagsþegnum.

Ég vil þó taka fram að ég vinn að því hörðum höndum að ná inn 80 milljónum til viðbótar til að tryggja mönnunina á Litla-Hrauni. Það skiptir máli, það eru fjármunir sem ég vonast til að fá til viðbótar. En ég tek eftir orðum hv. þingmanns, sem hann beinir til Alþingis sjálfs, að það taki líka utan um þetta mál.

Ég gat ekki farið í mörg atriði í þessu andsvari, en þetta eru atriði sem verða unnin í nefndinni. Þegar litið er til geðheilbrigðismála fanga þá stendur það fyrir utan þetta frumvarp og ekki hægt að taka á því þarna inni. Það er hins vegar mjög brýnt að sú vinna komist vel á legg sem við erum að setja af stað núna. Það er auðvitað gríðarlega mikið áhyggjuefni hve illa gengur að fá sérhæft starfsfólk inn í þennan málaflokk. Við sjáum hvernig þetta hefur verið með lækna. Við getum ekki einu sinni nýtt fjármagnið. Þótt við hefðum endalaust fjármagn þá er það vandamál sem er alveg sjálfstætt og er líka (Forseti hringir.) hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.