145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðleitni hæstv. ráðherra. Ég verð þó að minnast á tvennt sem ég tók eftir í frumvarpinu, sem mér þykir mjög miður þegar kemur að fjármögnuninni. Í greinargerð frumvarpsins segir berum orðum að fjárskortur sé farinn að hafa áhrif á það hvernig lögin taka á málum eins og vímuefnafíkn og vímuefnasmygli í heimsóknum. Við ætlum að fara að breyta reglum um heimsóknirnar þegar við vitum mætavel, eða ættum alla vega að vita, að fjárskorturinn veldur aukinni vímuefnaneyslu. Í stað þess að takast á við það vandamál þá eru yfirvöld oft gjörn á að ganga frekar á óþægileg réttindi, réttindi og kvaðir sem kosta peninga og geta verið svolítið vesen.

Á meðan staðan er svona þá finnst mér ekki að við eigum að fara í þá átt að breyta einhverju jafn veigamiklu og mikilvægu fyrir fanga eins og heimsóknum og sér í lagi hvað varðar áfengismeðferð, að ætla að fara að slaka á kröfum um það og skyldum yfirvalda til þess að takast skynsamlega á við fíknivanda fanga, beinlínis vegna þess að ekki eru peningar til þess. Ég gæti gagnrýnt það harðar en ég geri hér nú en ég ætla í bili að taka þessu sem aðvörunarorðum til Alþingis, að það sé algjörlega nauðsynlegt að Alþingi bregðist við brýnni þörf til þess að fjármagna málaflokkinn, þannig að hægt sé að veita sjálfsagða aðstoð við að reyna að losa fanga við fíknivanda. Fíkniefni og afbrot, það eru mikil tengsl þarna á milli og sér í lagi í fangelsum og það er eitt af stóru atriðunum sem við þurfum að geta tekist á við. Við getum ekki tekist á við þau almennilega núna og enn síður samkvæmt þessu frumvarpi. Allt sökum fjárskorts. Þegar við erum búin að leysa það vandamál sem ég vænti að við gerum nú einhvern tímann þá getum við vonandi tekið alvöruskref í átt til betrunar (Forseti hringir.) og breytt grundvallarhugarfarinu sem við beitum við stefnumótun í málaflokknum almennt.