145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar í fyrstu að benda hv. formanni allsherjarnefndar á eftirfarandi, sem hefur komið í ljós á síðustu klukkustundum, og jafnframt ráðherra, en það er eitt atriði til viðbótar við það sem ég nefndi áðan. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi við leit í klefa. Þar segir:

„Fangi skal ekki vera viðstaddur leit í klefa. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði samkvæmt ákvörðun forstöðumanns fangelsis. Gera skal skýrslu um leitina og þá muni eða efni sem kunna að hafa fundist og fanga er óheimilt að hafa í klefa.“

Þetta er, virðulegi forseti, í andstöðu við evrópsku fangelsisreglurnar sem ráðherra vísaði til í ræðu sinni.

Þegar frumvarp til laga sem nú eru í gildi var til umræðu hér á þinginu var upphaflega lagt til að fangi skyldi ekki vera viðstaddur leit í klefa. Í nefndaráliti allsherjarnefndar var vísað til evrópsku fangelsisreglunnar og Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður og núverandi hæstv. fjármálaráðherra, sem var framsögumaður á málinu, lýsti með svohljóðandi hætti umræðum um málið í þingsal:

„Nefndin leggur til þá breytingu á 52. gr. frumvarpsins að í stað þess að meginreglan verði að fangi skuli ekki vera viðstaddur leit í klefa sínum skuli hann að jafnaði viðstaddur slíka leit. Fyrirhugað er að nýjar evrópskar fangelsisreglur verði samþykktar í desember 2005 og fyrirséð að í þeim verði meginreglan í þessum efnum sú að fangi skuli að jafnaði viðstaddur leit í klefa sínum. Því telur nefndin rétt að stíga skrefið strax til fulls við setningu heildarlaga um fullnustu refsinga.“

Því verð ég að biðja hæstv. innanríkisráðherra um að hafa þetta í huga sem og hv. allsherjarnefnd. Það hafa greinilega orðið einhver mistök við gerð þessa frumvarps.

Mig langar aðeins að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson skildi við hann. Ég er mjög hugsi gagnvart fyrirbærinu sakaskrá. Af hverju sakaskrá? Það er nú þannig að þeir sem eru á sakaskrá eru þar út af mjög ólíkum sakargiftum. Margir hafa lent í því að vera staðnir að verki við það til dæmis að vera með neysluskammta eða smávægileg brot og eru á sakaskrá. Það er nú þannig að þegar þú ert að koma þér inn í samfélagið aftur og ert með þennan stimpil er oft býsna erfitt að vera tekinn sem fullgildur aðili í samfélagi manna. Það er erfitt að fá vinnu, erfitt að fá hús á leigu, erfitt að hafa klárað að afplána og vera orðinn betri maður.

Þarna er enn einn þröskuldurinn fyrir fólk sem hefur afplánað að geta tekið þátt í samfélaginu og meðal annars þess vegna er endurkoma svona algeng. Mér finnst að við ættum að hugsa þetta. Það er mjög margt í lögum okkar og kerfi sem er „af því bara“ og það hefur ekkert verið skoðað eða endurmetið. Mér finnst að við þurfum aðeins að skoða þetta fyrirbæri betur út frá betrun.

Ég hef fylgst mjög náið með unga fólkinu okkar sem fer í fangelsi, fólki sem á ekki að fara í fangelsi, fólki undir lögaldri. Þeir sem þekkja þann heim sem verður til í svona samfélögum vita að því yngri sem þú ert þeim mun meira þarftu að sanna þig í samfélaginu. Þar hefst oft löng ganga sem endar ekki alltaf vel fyrir marga.

Ég hef hitt stráka úti á Austurvelli, á göngu minni þar á milli skrifstofu minnar og þingsins, sem hafa lent í því að vera skyndilega kallaðir í fangelsi. Það er enginn fyrirvari þegar fólk fer í fangelsi, það er ekki eins og þú hafir fasta dagsetningu. Því er hægt að breyta, án þess að það sé mikill fyrirvari. Þá er undirbúningurinn og aðlögunin að samfélaginu enginn áður en fólk fer út. Fólk lendir hreinlega á götunni. Það er kannski byrjað í námi á Litla-Hrauni, byrjað á einhverri braut betrunar og því er kippt út úr því. Ég skil ekki af hverju ekki hefur verið búin til brú. Brúin er ekki til. Það er ekki einu sinni kominn vísir eða undirstöður að henni enn miðað við það sem ég hef heyrt mjög nýlega frá fólki sem var að koma út af Litla-Hrauni.

Ég hef oft rekið mig á það í umræðunni að margir landar mínir, Íslendingar, virðast halda að Litla-Hraun sé lúxushótel. Það leit kannski ágætlega út hér á árum áður en guð minn góður, þetta er ekki einu sinni einnar stjörnu hótel. Ég skil heldur ekki þá hugmyndafræði að þegar þú ferð í betrunarvist eigi aðbúnaðurinn að vera hluti af refsingu. Auðvitað á það ekki að vera þannig. Aðbúnaður á að vera þannig að hann sé mannsæmandi og að fólk fái að halda sjálfsvirðingu. Við megum ekki taka hana af fólki þó svo að það hafi brotið af sér.

Það er auðvitað þannig að fólk sem brýtur af sér er alls konar fólk. Í merkilegri ræðu Obama þegar hann fyrstur forseta Bandaríkjanna fór í heimsókn í fangelsi segir: Langflestir sem eru í fangelsi í Bandaríkjunum — sem er reyndar alveg rosalega hátt hlutfall ungra manna — eru ungir menn sem hafa gert eitthvað smávægilegt af sér, oft eitthvað sem fylgir því að vera á ákveðnum aldri og mjög margir komast upp með en sumir lenda í svokölluðu betrunarkerfi eða refsikerfi sem gerir að verkum að smáaxarsköft verða til þess að þeir komast aldrei aftur út. Þarna er hreinlega verið að taka möguleikann á lífi frá fólki.

Eitt það ljótasta sem ég veit í íslensku réttarkerfi er biðin eftir því að fá að afplána. Hún er alveg skammarleg. Þegar þannig er komið að þessir ungu strákar — þeir eru yfirleitt eitthvað að bralla þegar þeir eru á ákveðnu aldursskeiði, eru gripnir, eiga að afplána, bíða kannski í tvö ár og eru kannski búnir að umbylta lífi sínu. Er þá ekki tilganginum náð? Er það ekki þannig? Allan þennan tíma eru þeir með fangelsisvistina yfirvofandi, kannski búnir að eignast börn. Það líður oft svo langur tími þar til þú færð að klára þína refsivist, því að það er refsivist og ómannúðleg refsing að láta fólk bíða svona lengi eftir því að fá að afplána.

Ég er mjög hrifin af því — og það er það sem ég óttast þegar á að fara út í ökkla-stöffið, sem sagt heimafangelsunina, að einvörðungu verði litið á það sem leið til að spara. Það má ekki vera þannig. Það verður að vera þannig, ef fara á út í þá leið, að það sé prógramm, einhver leið fyrir ungt fólk sem vill fá tækifæri til að fara í betrun með líf sitt, að það sé ekki bara látið hanga heima og horfa á sjónvarpið og fara í tölvuleiki og bíða eftir að þessum kafla lífs þess sé lokið. Þá er mikil hætta á að hlutirnir endurtaki sig.

Það er líka þannig með þá sem misstíga sig í lífinu að það er ekki að ástæðulausu. Það er búið að vera langt ferli, t.d. í neyslu. Það að refsa fólki fyrir að vera veikt er líka eitt það ljótasta sem ég veit í okkar samfélagi. Það er mjög slæmt að við séum núna komin á þann stað að ekki séu til nægileg úrræði fyrir ungt fólk í neyslu til að fara í langtímautanumhald. Það er mjög slæmt að ekki sé til neitt kerfi sem tekur á móti fólki sem er að koma úr fangelsi og það kallar bara á vítahringinn. Hversu dýrt er það fyrir samfélag okkar? Þá er ég ekki bara að tala um peninga. Það er bara mjög dýrt.

Það vill svo til að mjög margir þeir sem ég hef kynnst sem hafa misstigið sig, og líka þeir sem hafa gert það viljandi, eru mjög klárt fólk, hefði það fengið tækifæri til að fá að blómstra í lífinu gætu þetta orðið manneskjur sem yrðu mjög dýrmætar fyrir samfélagið allt. Einhvern veginn þurfum við líka að horfa á það þannig. Það er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé en megnið af fénu, sem er látið bíða mjög lengi áður en það fær að fara í afplánun, er frábært fólk sem á fjölskyldur, mömmur sínar og pabba eða syni og dætur, bræður og systur. Við megum ekki gleyma því.

Það sem ég tel brýnast er að tryggja að þeir sem eiga að fara í einhver úrræði — að það sé haldið utan um þá sem vilja að það sé tryggt að fólki sé ekki refsað viðstöðulaust fyrir að hafa brotið af sér, kannski fyrir langalöngu. Þá ertu alltaf á sakaskrá. Þú þarft alltaf að segja að þú hafir framið afbrot og afbrotin eru ansi rýr sum hver. Þetta þarf að skoða þegar farið verður í að endurskoða málaskrána. Það þarf að endurhugsa aðeins þessa leið til að merkja fólk því að þú ert merktur um lífstíð og það er ekki sanngjarnt.