145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom inn á fjöldamörg atriði í ræðu sinni og ég hygg að þau verði tekin til meðferðar við vinnslu málsins í þinginu sem og mörg álitamál sem eru líka annars eðlis og kannski grundvallarspurningar um það hvernig við ætlum að haga hlutum.

Varðandi það atriði sem hv. þingmaður vakti athygli á geri ég ráð fyrir að þetta verði skoðað í allsherjarnefnd. Ég hygg að þetta sé svona í Danmörku, það þarf bara að kanna hvernig stendur á því að þessu er svona fyrir komið í frumvarpinu. Ekki ætlum við að fara gegn því sem við höfum skuldbundið okkur til þannig að það þarf að skoða það og ég veit að nefndin mun gera það.

Það eru tvö eða þrjú atriði sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi hygg ég að það sé betra að þetta bráðunga fólk afpláni á meðferðarheimilum en í fangelsum. Auðvitað viljum við samt helst að unga fólkið komi sér ekki í þær aðstæður að vera dæmt til refsinga. Einnig þarf að kanna það betur en ég held að dómþolum sé við upphaf refsingar gerð grein fyrir því hvaða dag viðkomandi losnar. (Gripið fram í.) Ég held einhvern veginn að það sé þannig en það getur vel verið að það sé einhver misbrestur á því. Það þarf bara að fara yfir það, sjálfsagt að gera það og bæta úr því.

Hv. þingmaður nefndi fjöldann. 500 dómþolar bíða þess að koma í afplánun sem er 140% aukning frá efnahagshruninu. Það eru 144 rými í landinu þannig að við sjáum (Forseti hringir.) að við stöndum frammi fyrir gríðarlega stórum vanda.