145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að það eigi að skoða þetta. Það er ekkert svo langt síðan ég var að vinna hjá Götusmiðjunni og þá fengum við til okkar fanga til meðferðar sem var inni á Litla-Hrauni og átti svo sannarlega ekki að vera þar út af aldri. Það er allur gangur á því og ég vona svo sannarlega að það sé orðið þannig að enginn undir aldri fari inn á Litla-Hraun. Þar til bærar alþjóðastofnanir sem fylgjast með hér hafa gert alvarlegar athugasemdir við það.

Ég rakst á strák úti í Austurstræti sem sagði að það væri greinilega verið að búa til pláss fyrir einhvern annan og þannig hafi hann farið út eitthvað aðeins fyrr. Ég er ekki að tala um langan tíma en einn dagur til eða frá eða vika eða mánuður getur skipt miklu máli upp á að búa sig undir það að fara út.

Það væri mjög gagnlegt ef hæstv. ráðherra kannaði hvort það væru einhver tilfelli um að fólk fengi ekki nægilegan undirbúningstíma til að geta lagað sig aftur að samfélaginu. Ef það er eitt tilfelli er það einu of mikið. Ég er samt ekkert á móti því að fólk fái að fara fyrr en það verður að passa þetta. Núna finnst mér líka mjög mikilvægt þegar við erum með þessa löngu biðlista að það verði brugðið á önnur ráð. Sá sem hefur beðið í einhvern tíma á að fá það reiknað inn í og refsivistin ætti hreinlega að vera metin út frá aðstæðum viðkomandi. Ef viðkomandi er búinn að ná tökum á lífi sínu og til dæmis búinn að stofna fjölskyldu og snúa blaðinu við finnst mér fullt tilefni til að ríkið axli líka ábyrgð á að geta ekki framfylgt sínum skyldum.