145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[17:04]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða mjög stórt og mikilvægt mál sem varðar það fyrirkomulag sem við höfum þegar einstaklingur hefur með einhverjum hætti slitið það net sem við getum hugsað okkur að allir séu með einhverjum hætti í. Samfélagssáttmálinn eða það sem bindur einstaklinginn við fjölskyldu, skóla, vini, samfélag, hefur þá farið úrskeiðis; netið eða samfélagssáttmálinn er rofinn, hvort sem einstaklingurinn hefur beinlínis valdið sér því sjálfur, af því að hann hefur ekki fótað sig í lífinu, eða að netið hefur brugðist honum á einhvern hátt.

Ég heyri það á máli þeirra sem hér hafa rætt þetta mál að þetta er rætt vítt og breitt sem er mjög gott. Að sjálfsögðu er það ósk okkar allra að enginn þurfi að lenda þarna. Það er markmiðið að þau úrræði sem þessi lög fjalla um og þetta form á samfélagsstofnun eigi sem sjaldnast við. Það er afar vont að hlusta á þá tölfræði að við skulum sífellt hafa meiri og meiri þörf fyrir þetta.

Ég vil byrja á að taka undir það sem sagt er um að núverandi úrræði séu mjög vanfjármögnuð. Það hefur verið mjög sérstök upplifun að hlusta á fangaverði með áratugareynslu í þeim störfum tala um að ástandið sé núna verra á öllum sviðum fangelsismála en þeir muna, og hef ég enga ástæðu til að rengja þá með það. Það er afar óheppilegt og Alþingi verður að taka það til sín og tryggja fjármagn í það.

Þau úrræði og sú meðferð og sú mannrækt sem á að vera við lýði á þessu sviði mannlífsins nær þá til einstaklinga sem við sjáum fyrir okkur að séu hugsanlega að feta sig inn á þá braut sem endar með því að lög um fullnustu refsinga munu eiga við þá, að þeir lendi sem sagt í afplánun. Við erum að tala um stofnanir sem eru að vinna þar og svo þær stofnanir sem vinna með einstaklinginn eftir að fullnustu lýkur.

Við höfum verið í vanda á þessu sviði samfélagsins fyrir ýmissa hluta sakir. Margar stofnanir eða heimili sem störfuðu á þessu sviði hafa lent í áföllum. Upp hafa komið óheppileg mál þar sem skjólstæðingar á slíkum stofnunum hafa verið beittir órétti, misrétti eða ofbeldi. Það hefur leitt til þess að stofnunin hefur hreinlega flosnað upp og starfsemin átt erfitt uppdráttar. Það má alls ekki fela það í sér að við hlaupum frá málinu eða hættum starfsemi eða missum trú á öllu því góða fólki sem hefur haslað sér völl á þessu sviði.

Það er kannski svolítið erfitt að koma þessu öllu í orð á nákvæmlega þessum vettvangi en margir þeirra sem hafa starfað á þessu sviði eru miklir frumkvöðlar, brenna mjög fyrir málefninu. Þeir vilja vinna við mannrækt, finna mikla samlíðan með skjólstæðingum sínum en eiga ekki endilega alltaf samleið með stjórnsýslu og reglufestu, aga í fjármálum og hafa ekki þolinmæði fyrir alls konar regluverki sem verður til í kringum málaflokk sem þennan. Þar af leiðandi höfum við orðið fyrir áföllum í þessu og kannski ekki gengið nógu vel að þróa þetta áfram. Þess vegna hefur orðið rof í starfsemi sem lengi lofaði góðu og hefur átt erfitt uppdráttar og deilur verið uppi um alls konar meðferðarúrræði á þessu sviði. Það er mjög miður vegna þess að hjá þessum frumkvöðlum og þeim sem brenna fyrir þessu er oft mesta sköpunin í gangi. Þeir þurfa fyrst og fremst stuðning og umburðarlyndi til þess að þróa sína starfsemi þannig að úr verði öflug stofnun sem nær árangri til lengri tíma.

Fjárfesting á þessu sviði, í meðferð eða úrræðum fyrir þá sem sýnilega eru að feta sig inn á þessa braut, eða hafa hlotið sína fyrst dóma, er þörf. Reynsla mín úr lögreglunni, lestur dóma og reynsla af dómstólum segir mér að það er ekki þannig að dómstólar á Íslandi séu að dæma unga fanga, þ.e. að ekki sé verið að nýta heimildir í almennum hegningarlögum til að fara aðrar leiðir en að dæma til fangelsisrefsingar of snemma. Það er ekki mín reynsla að það sé þannig. Mér finnst allir í þessu kerfi af vilja gerðir til að fresta því eins og kostur er og reyna að leita allra annarra leiða. En það gengur samt illa af því að netið í kringum einstaklinga á aldrinum 13–14 til 22–25 ára er einhvern veginn ekki nógu þétt. Það eru vaxandi viðfangsefni, sérstaklega meðal ungra drengja sem finna sig ekki á þeim brautum lífsins sem við höfum á einhvern hátt markað þeim, það gengur hreinlega ekki nógu vel. Við höfum náð frábærum árangri í mæðravernd, í ungbarnaeftirliti á fyrstu árum æviskeiðsins en við eigum enn töluvert í land á unglingastiginu.

Sá sem hefur fengið dóm, sá sem hefur verið dæmdur til afplánunar, sá sem vistast á stofnunum sem slíkum — hvað getum við gert fyrir hann svo að það heiti betrun, svo að hann finnir sína rás í lífinu og fari ekki aftur til fyrri iðju? Hér eru ýmis ákvæði og ýmsar greinar sem fjalla einmitt um þetta, um samfélagsþjónustu, um meðferðaráætlun; afar mikilvæg atriði. Þetta eru ákvæði sem hægt er að beita til að aðstoða einstaklinginn við að finna sína fjöl aftur í samfélaginu og koma honum af braut afbrota yfir á þær brautir sem við teljum æskilegar í lífinu. Í þessu verðum við að þora og hafa vilja til að fjárfesta. Starfsemi á þessu sviði verður að einkennast af mannrækt og að þeir sem vinna þarna brenni fyrir því sem þeir eru að gera, finni samlíðan og samvitund með viðfangsefninu og upp úr því þróist síðan fagmennska og langtímastarf.

Norðurlöndin eiga að vera okkar helsta fyrirmynd á þessu sviði. Við þurfum að færa starfið þannig að það eigi sér líka stað fyrr. Það á sjálfsagt við aðra umræðu og önnur lög, hvernig við getum unnið betur í áhættuhópum. Hvar merkjum við fyrst að einstaklingur sé hugsanlega að fara inn á þá braut sem endar með því að hann sé til viðfangs í þeim stofnunum og í þeim úrræðum, sem hér er verið að fjalla um; að það eigi allt í einu við hann eitthvað sem heitir réttindi og skyldur fanga? Auðvitað viljum við fyrst og fremst koma í veg fyrir að til verði fangar.

Ég vil fyrst og fremst undirstrika mikilvægi málaflokksins, að rýmkað verði um fjárheimildir til núverandi starfsemi þannig að hún megi þrífast og eflast og hvetja til þess að sem flestir hlutaðeigandi aðilar verði kallaðir fyrir á meðan þetta mál er til umfjöllunar í nefnd.