145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

viðbrögð við hryðjuverkaárásunum í París.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir til hæstv. innanríkisráðherra og tek undir með henni að við þurfum að meta hvaða aðgerða við grípum til í framhaldinu. Það er eitt sem virðist einkenna bakgrunn árásarmanna í hryðjuverkum hingað til. Um er að ræða unga pilta af múslimskum uppruna sem hafa alist upp í viðkomandi ríkjum en upplifa sig utanveltu, félagslega veikburða, finna sig ekki í skóla eða vinnu og eyða öllum sólarhringnum í tölvunni. Það er sláandi að bakgrunnur þeirra sem hafa gerst sekir um hrikaleg fjöldamorð í Bandaríkjunum er svipaður. Þessi vandi, félagsleg einangrun, það að ungir piltar finna sig utanveltu í samfélaginu, verður ekki leystur með vopnaburði lögreglu eða með löggæslu á landamærum eða með því að loka landamærum og tala illa um fólk af ákveðnum kynþætti. Hann verður leystur með félagslegum aðgerðum, með því að opna skóla, með því að fjölga tækifærum fyrir ungt fólk og brjóta niður þessa félagslegu einangrun. (Forseti hringir.) Það ætti að vera markmið okkar fyrst og síðast sem viðbragð við (Forseti hringir.) þessum hörmungaratburðum.