145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef raunar ekki verið boðuð á neinn formannafund. Mig rennir grun í að það verði ansi erfitt að ná formönnum flokkanna saman í þessari viku ef ég kann dagskrá þeirra rétt, eins og það var erfitt í síðustu viku og eins og það er oft ansi erfitt. Nú höfum við starfað í þessari nefnd í umboði þeirra flokka sem við tilheyrum. Það hefur verið mín trú og sannfæring að allir fulltrúar í nefndinni séu með skýrt umboð sinna þingflokka og formanna varðandi verkefni nefndarinnar og að öllum þingflokkum hafi verið haldið upplýstum allt ferlið, alla 40 fundina, um hvar málin standa. Ég get vottað að þannig er það a.m.k. í mínu tilfelli. Minn þingflokkur hefur verið upplýstur um hvert einasta skref í þessari vinnu. Ég treysti því að auðvitað hafi það verið þannig hjá öðrum þingflokkum í þessu mikilvæga máli sem við ættum öll að forgangsraða efst á forgangslista okkar þegar við skoðum það.

Ég ítreka að nefndin þurfi að fá skýrt umboð. Ég veit ekki hvort það er nokkur ástæða fyrir nefndina að bíða eftir formönnum flokkanna. Fyrst og fremst þurfa fulltrúar flokkanna í nefndinni að fá mjög skýrt umboð (Forseti hringir.) til að ljúka málinu.

Svo langar mig að ítreka spurninguna sem ég kom með hér áðan til hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) um dagsetningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og hvort hann hafi einhverja sérstaka skoðun á henni.