145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

umfjöllun um hryðjuverkin í París í fjölmiðlum.

[15:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég rak augun í morgun í frétt með yfirskriftinni „Sigmundur Davíð: Ráðamenn þora ekki að segja hug sinn af ótta við pólitískan rétttrúnað“. Þetta er úr viðtali við hæstv. forsætisráðherra. (ÖS: Þetta hefur alltaf verið svona.) Það sem ég hjó sérstaklega eftir í þessu viðtali við hæstv. forsætisráðherra var yfirlýsing forsætisráðherra í morgunútvarpinu. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Til dæmis núna þegar þessi mikli straumur liggur til Evrópu, þúsundir, jafnvel tugþúsundir á dag, þá segir það sig í rauninni sjálft að þar inn á milli getur leynst hættulegt fólk. Eins og hefur sést núna. En menn hafa ekki viljað segja þetta vegna þess hvernig það kynni að verða túlkað.“

Þetta sagði Sigmundur en vildi þó meina að þar vanmætu kollegar hans, forsætisráðherrarnir, almenning.

„Þó að menn bendi á þá augljósu staðreynd að auðvitað munu svona glæpasamtök nýta tækifærið þegar landamæri Evrópu eru opin þá telur almenningur ekki að með því sé verið að segja að flóttafólk séu glæpamenn. Fólk getur alveg greint þarna á milli sjálft. En samt, það er þessi feimni við að ræða þetta og nú liggur ljóst fyrir að þessi samtök eru búin að nota tækifærið, nýta neyð þessa fólks til að smygla inn fjölda fólks til Evrópu.“

Mig langar í ljósi þessarar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra að spyrja hvar hann hafi fengið upplýsingar um að svona sé málunum háttað, hvort hann telji að þær séu ekki pínulítið hættulegar í ljósi þeirrar umræðu sem er í gangi víða meðal öfgahópa í hina áttina, sem nýta sér tækifærið til að ala á einhvers konar tortryggni gagnvart til dæmis Sýrlendingum, hvort þetta sé ekki olía á þann eld og hvort hæstv. forsætisráðherra ætti ekki að fara aðeins varlega með hvernig hann ákveður að tjá sig áður en nokkuð liggur fyrir um það hvort einhverjir flóttamenn hafi í raun og veru smyglað sér inn um landamæri í Evrópu á þann hátt sem forsætisráðherra telur að hafi gerst.