145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

bygging íbúða á Hlíðarendasvæðinu.

[15:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Hér er spurt að því hvort innanríkisráðherra standi í vegi fyrir því að byggðar verði hundruð íbúða á Hlíðarendasvæðinu. Þá er því til að svara að það er á ábyrgð innanríkisráðuneytisins að halda uppi innanlandsflugi á Íslandi. Ríkið rekur flugvöll í Vatnsmýri í Reykjavík þar sem höfuðstöðvar innanlandsflugsins eru. Það er síðan ákvörðun innanríkisráðherra hvers tíma hvernig á því máli skuli halda.

Hér er sérstaklega verið að spyrja um svokallaða þriðju braut sem nefnd hefur verið neyðarbrautin. Það verður aldrei hægt að hefja frekari framkvæmdir fyrr en innanríkisráðherra hefur tekið um það ákvörðun að loka brautinni. Þannig er það, þannig endar það. Það skiptir máli fyrir yfirvöld flugmála í landinu að hafa einhvern fyrirsjáanleika í því hvernig skipulagningu innanlandsflugs verður háttað. Það er ekki hægt fyrir ráðherra flugmála að taka ákvarðanir sem eru til þess fallnar að draga svo verulega úr öryggi innanlandsflugs að því sé hætta búin. Þegar menn hafa komist að niðurstöðu um það að hlutirnir séu í lagi þá verða tilheyrandi ákvarðanir teknar. Það er heldur ekki hægt að skipuleggja flug með þeim hætti að hætta sé á því að innanlandsflug hrekist burtu af svæðinu í Vatnsmýrinni án þess að flytja eigi það neitt annað. Þannig gengur það bara ekki fyrir sig.

Ábyrgð innanríkisráðherra sem yfirmanns flugmála er fyrst og fremst sú að gæta að því að hægt sé að reka hér innanlandsflug og að það sé gert með öruggum hætti bæði þegar litið er til almenns flugöryggis og til öryggis landsmanna í heild sinni. Þar liggur ábyrgð innanríkisráðuneyti númer eitt, tvö og þrjú. Þótt ég mundi (Forseti hringir.) gjarnan vilja stýra öllum húsnæðismálum í landinu þá hefur mér ekki verið falið að gera það, en (Forseti hringir.) fram að þeim tíma ætla ég að einbeita mér að þessu verkefni. Svona stendur það. (Gripið fram í.)