145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

vinna stjórnarskrárnefndar.

[15:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sú stjórnarskrárnefnd sem kom hér áðan til umræðu held ég að hafi haldið einhvers staðar á bilinu fimm til tíu lokafundi. Enn er málinu ekki lokið. Það er óhjákvæmilegt að spyrja formann Sjálfstæðisflokksins hvort eitthvað standi í veginum fyrir því að nefndin ljúki störfum sínum og skili niðurstöðum, hvort hann sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafi eitthvað við það að athuga eða hvort almennt sé eitthvert nýtt verklag í stjórnmálunum að nefndir megi ekki skila niðurstöðu fyrr en formenn hafi haldið sérstaka fundi til að fara yfir þær niðurstöður fyrst.

Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hafa unnið þetta kjörtímabil að því að koma til móts við það mikla ákall í íslensku samfélagi um aukið lýðræði í landinu. Ég vil spyrja ráðherrann hvort það liggi ekki fyrir þverpólitísk sátt allra stjórnmálaflokka í landinu, sem geti tryggt stjórnarskrárbreytingu, um að almenningur í landinu geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort það eitt og sér sé ekki gríðarlega mikilvægt framfaraskref í stjórnskipan landsins.

Í öðru lagi vil ég spyrja hvort ráðherrann telji ekki að þessar tillögur þurfi að liggja fyrir þegar í þessari viku í ljósi þess að það þarf að afgreiða slíkar tillögur sem lög frá þinginu fyrir jól. Við höfum aðeins fjórar vikur eftir af þessu þingi ef þjóðaratkvæðagreiðsla á að geta farið fram samhliða forsetakosningum í júní. Getur ekki ráðherrann gefið okkur dagsetningu, tímasetningu, þegar hann telur að þessu máli þurfi að vera lokið, hvort sem það er næsti föstudagur, mánudagur í næstu viku eða miðvikudagurinn, einhvern dag?

Að síðustu: Ef ekki næst saman um hin þrjú atriðin, þjóðareign, framsal o.fl., telur ráðherrann þá eigi að síður að flokkarnir eigi að (Forseti hringir.) sameinast um að setja fram tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá?