145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[15:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það fer vel á því að hið háa Alþingi skuli ræða stöðu tungunnar á þeim degi sem listaskáldið góða fæddist. Það fer ekki síður vel á því að umræðan skuli vera hafin af hinni mætu þingkonu hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur sem er runnin upp á þeim slóðum þar sem fegursta og besta bók íslenskunnar var skrifuð.

Það er ekkert sjálfgefið með framtíð íslenskunnar. Árið 1849 sendu 130 bændur bænaskjal til Alþingis þar sem þeir fóru þess á leit að yfirvaldið hlutaðist til um það að embættismenn tækju upp þann sið að tala íslensku við almenning á Íslandi. Á þeim tíma lá við borð að íslenskan hrataði fyrir ætternisstapa. Í dag horfum við líka fram á nýjar ógnir. Við sem lásum vísindaskáldsögur gærdagsins hrifumst af lýsingum sem þar voru á framtíð þar sem hægt væri að stýra tölvustýrðum tækjum einungis með því að tala við þau. Í dag er þessi lýsing í reynd búin að knýja dyra. Í dag er þetta ekki lengur framtíð heldur nútíð.

Þetta er í sjálfu sér þróun sem mun leiða til margvíslegs ávinnings fyrir okkur sem lifum í þessari veröld. En hún hefur líka í för með sér ákveðnar ógnir gagnvart litlu málsamfélagi eins og okkar. Eins og hæstv. ráðherra gat um skiptir miklu máli að í hinum stafræna veruleika sem hefur þegar knúið dyra sé íslenskan gjaldgeng. En það vill svo til að við höfum tæknina til þess, samtvinnun tungunnar og tölvutækninnar hefur skapað nýtt svið, máltækni, sem beinlínis vinnur að því og hefur leyst flest vandamál við það að geta gætt tölvur skilningi á hinu mælta orði. Það eina sem þarf til þess er fjármagn en við vitum líka hvað þarf mikið fjármagn til þess, það þarf 1 þús. milljónir á tíu árum. Það eru 100 milljónir á ári. Það er þó þrátt fyrir allt ekki nema þrefalt meira heldur en þegar er að fara til þess verks.

Ég tel fara vel á því, herra forseti, að á degi íslenskrar tungu sameinist Alþingi um það að lyfta þessu máli með þeim hætti að við tryggjum nægilegt fjármagn til þess að hrinda þessu í framkvæmd.