145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[15:58]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Til hamingju með dag íslenskrar tungu. Það er einkar viðeigandi að ræða á þessum degi málefni sem varðar tilvist og styrk íslenskrar tungu til framtíðar.

Í dag fengum við þingmenn afhenta ályktun um stöðu íslenskrar tungu 2015 frá Íslenskri málnefnd. Þar er lögð áhersla á mikilvægi þess að íslenska sé og verði almenningseign og að öllum íbúum landsins sé gert mögulegt að nota íslenskuna. Ef svo á að verða þarf ýmislegt að koma til og þar á meðal að íslenska verði gjaldgeng í stafrænni upplýsingatækni. Þess vegna er svo mikilvægt að við vitum hvaða skref við þurfum að taka til að svo verði og hvað aðgerðir kosta þannig að hægt sé að vinna eftir áætlun með markmiðum, fjárveitingum og tímasetningum. Það er þess vegna gleðiefni að í framhaldi af þingsályktun allsherjar- og menntamálanefndar sem samþykkt var á síðasta ári hafi komið skýrsla í desember 2014 þar sem farið er yfir leiðir og sett fram áætlun. Það er síðan okkar sem hér störfum að fylgja þeirri áætlun eftir með fjárveitingum og hvetja aðra í samfélaginu til að koma að verkefninu og því fagna ég orðum hæstv. ráðherra um samstarf við atvinnulífið um verkefnið.

Við eigum ágætis forrit sem leiðrétta stafsetningu. Okkur vantar forrit sem leiðrétta og leiðbeina um málfar. Við þurfum tölvur sem skilja íslensku, sem sagt talgreina, við þurfum vélrænar þýðingar. Íslensk tunga er undirstaða menntunar allra þeirra sem hana nota dags daglega, hvort sem hún er fyrsta eða annað tungumál viðkomandi. Í mörgum tilfellum notar ungt fólk vélrænar þýðingar frekar en orðabækur, sækir bókmenntir á netið frekar en í hillu. Þess vegna er þetta undirstaðan fyrir áframhaldandi notkun íslenskunnar.