145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[16:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Óttarr Proppé lét í ljósi þá frómu ósk að sú stund rynni aldrei upp að ísskápurinn hans mundi nokkru sinni tala til hans á betri og kjarnmeiri íslensku en hann byggi yfir sjálfur. Ég óttast ekki sú stund renni upp. Hins vegar kann að renna upp sá dagur fyrr en varir að ísskápar á Íslandi búi yfir ríkari orðaforða en meðal Íslendingurinn. Við þurfum að minnsta kosti að sjá til þess að allt það sem við getum gert komi í veg fyrir að Íslendingurinn tali verri íslensku en hugsanlega þau tæki sem hann þarf að nota.

Tæknin er orðin slík að með því að fóðra tölvur sem vinna eftir lögmálum máltækninnar og tungutækninnar er hægt að búa til skilning innan þeirra sem eru jafnvel svo ríkir að skilja hina tvíræðu íslensku fyndni.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að við hefðum ekki mikinn tíma. Það er alveg hárrétt. Það hefur verið metið svo af sérfræðingum að málsamfélag sem missir af því tækifæri að leggja sitt beisli yfir þennan nýja klár tækninnar kunni að dvína og jafnvel deyja út á innan við öld. Þess vegna olli það mér nokkrum vonbrigðum að hæstv. ráðherra var ekki kraftmeiri í framsetningu sinni á því með hvaða hætti hann vill að við Íslendingar og framkvæmdarvaldið bregðist við. Það liggur alveg ljóst fyrir hvað þarf að gera og reyndar hafa verið skrifaðar margar skýrslur um það. En búið er að kostnaðargreina hvað það er sem þarf að gera. Ég fór með þær tölur áðan. Það þarf ekki annað en þrefalda það framlag sem nú er þegar sett inn í þetta svið innan vébanda menntamálaráðuneytisins. En í stað þess að gefa yfirlýsingar um að hann hygðist tryggja það, þá sýnist mér að hæstv. ráðherra ætli að nota dag íslenskrar tungu til að lýsa því yfir að hann færi á hnjánum til atvinnulífsins til að sníkja peninga þaðan. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera ef hann fær ekki peninga þaðan? Ég tel að þetta sé mál sem við, Alþingi, eigum að tryggja og eigum að nota þennan dag til að slá vörð um íslenska tungu með slíkum samþykktum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)