145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

sjálfkeyrandi bílar.

174. mál
[16:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að oft er það þannig að lagaumhverfið fylgir ekki eftir tækniframförum. Það hefur ávallt verið svo að lagaumhverfið er töluvert á eftir tækniframförum.

Ég held að í þessu efni sé mjög æskilegt fyrir okkur að fylgjast mjög grannt með. Við vitum að það er að minnsta kosti mjög algengt þótt ég taki ekki dýpra í árinni en svo að slys verða í umferðinni vegna mistaka hjá okkur sjálfum, ökumönnum sjálfum, þ.e. mannleg mistök valda oft alvarlegustu slysunum.

Varðandi sjálfkeyrandi bíla þurfum við líka að gæta að því að þá reynir á, eins og ég gat um í svari mínu, hverra ábyrgðin er ef bifreið bilar. Hver er ábyrgð framleiðenda þegar ekki er um hefðbundinn ökumann að ræða sem ekur bifreiðinni?

Ég vil þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að vekja máls á þessu og varpa fram þessari spurningu. Ég held að það sé æskilegt fyrir okkur eins og ávallt áður að hafa gætur á því sem er að gerast í þróun mála. Manni finnst ekki ótrúlegt að þróunin sé hraðari en okkur sjálfum órar fyrir. Þá er mikilvægt fyrir okkur, einmitt þegar við lítum til skipulagningar samgöngumála í stærra samhengi, að hafa hugsanlegar breytingar í huga þegar við tökum ákvarðanir.