145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

væntanleg íbúakosning í Reykjanesbæ.

266. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem hafa talað. Mér finnst býsna mikilvægt mál hvernig til tekst og mér finnst það vekja spurningar í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði áðan að í raun væri sú staða uppi að ráðuneytið gæti ekki skipt sér um of af eftirliti og framkvæmd þessarar kosningar vegna þess að það kynni að koma upp sú staða að niðurstaða þeirrar eða framkvæmd yrði kærð á síðari stigum til innanríkisráðuneytisins. Mér finnst það vekja ákveðnar spurningar af því að við erum komin með þessa heimild inn í sveitarstjórnarlögin. Við erum að vinna að því að fá slíka heimild inn í stjórnarskrá fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur. Þurfum við ekki að endurskoða eitthvað það fyrirkomulag sem við höfum hér? Í nefnd sem er að fara yfir kosningalögin og löggjöfina hefur verið rædd sú hugmynd að yfirkjörstjórn eða landskjörstjórn fái breytt og útvíkkað hlutverk, verði einhvers konar stofnun frekar en einungis starfandi í kringum hverjar kosningar. Það er líka til þess að framkvæma, getum við sagt, ákveðinn aðskilnað milli innanríkisráðuneytisins, sem í tilfelli þjóðaratkvæðagreiðslna er framkvæmdaraðili á slíkum kosningum, og síðan þeirra aðila sem eiga að hafa eftirlit með kosningunum.

Ég velti því upp, þótt það hafi ekki staðið í fyrirspurn minni, hvað hæstv. ráðherra telur um þetta, hvort hún telji að það eigi að skoða þennan möguleika. Við sjáum það bara á þessu eina máli hve mörg vafaatriði eru uppi.

Nú er það svo að meiri hluti sveitarstjórnar eða sveitarstjórnin ber ábyrgð á framkvæmd kosningarinnar. Þetta var mikið rætt á sínum tíma til dæmis þegar við vorum að ræða Evrópusambandsmálin, hvernig ætti að tryggja upplýsingaflæði frá ólíkum hliðum þeirra sem eru á móti aðild, þeirra sem eru með aðild, hvernig væri hægt að tryggja það að allir hefðu aðgang að upplýsingum og hvert væri þá hlutverk stjórnvalda í þeim efnum. Ég velti því upp hvort við þurfum ekki að móta einhverjar (Forseti hringir.) reglur eða eitthvað slíkt fyrir sveitarstjórnir í ljósi þess að ég held að ríkur vilji sé til þess hjá landsmönnum að nýta þessa heimild í miklu fleiri (Forseti hringir.) tilfellum, heimild til íbúakosninga.