145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

orkuskipti skipaflotans.

279. mál
[17:14]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Orkuskipti skipa eru víða á dagskrá í stjórnkerfinu. Orkuskipti skipaflotans eru meðal annars viðfangsefni innan gildandi aðgerðaáætlunar sem varðar nettólosun til 2020 og skuldbindingar stjórnvalda í loftslagsmálum varðandi Kyoto-bókunina. Þá eru Samgöngustofa og innanríkisráðuneytið saman í verkefni sem ber heitið Orkuskipti í skipum. Það verkefni er í gangi. Græna orkan er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífsins og vinnur einnig að því verkefni að annast orkuskipti í samgöngum, en þar er fjallað um skip jafnt sem bíla.

Þá má nefna Hafið, öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, sem er með innleiðingu nýrrar loftslagsvænnar tækni í áherslum sínum. Þar er komið inn á rannsóknir og tækninýjungar sem þingmaðurinn gat um.

Í skýrslu samstarfshóps fimm ráðuneyta auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem kom út núna í byrjun október, er aðgerðum í loftslagsmálum lýst og fjallað ítarlega um stöðu mála varðandi fiskiskipaflotann. Þar kemur fram að íslenski fiskiskipaflotinn notar um 150 þúsund tonn af olíu á ári. Spár benda til að sú notkun verði svipuð næstu tíu árin ef ekkert er að gert. Í eldsneytis- og orkuspá nefndar er gert ráð fyrir að loftslagsvænir orkugjafar muni þó koma í auknum mæli í stað jarðefnaolíu í fiskiskipum. Þar vil ég nefna lífdísilolíu sem er sambærileg við hefðbundna dísilolíu hvað varðar gæði og orkugetu. Lífdísilolía úr sláturúrgangi og notaðri steikingarfeiti er framleidd á Íslandi og að hluta til notuð á skip.

Þróun annarra loftslagsvænna orkukosta er kannski ekki komin mjög langt á leið, m.a. þeirra sem krefjast tæknibreytinga um borð í skipunum og betra dreifikerfis á orkunni. Ýmislegt er þó gert til að knýja skipin með loftslagsvænum orkugjöfum eins og ég hef þegar sagt. Siglingastofnun, nú Samgöngustofa, og Landbúnaðarháskóli Íslands hafa meðal annars gert úttekt á möguleikum á notkun repjuolíu á skip. Þar hefur verið unnið að tilraunarækt á repju í samstarfi við bændur. Þar er skemmtileg tenging landbúnaðar við sjávarútveg þar sem afurðir jarðar gefa orku til sjós.

Það er skemmtilegt að nefna verkefni sem var stýrt af stjórnvöldum sem er rafknúið seglskip Norðursiglinga, Opal, sem notað er til hvalaskoðunar. Það verkefni hefur hlotið viðurkenningu fyrir vistvæna nýsköpun í ferðaþjónustu. Í því samhengi má nefna að árið 2014 hafði Ísland frumkvæði að því að setja á laggirnar verkefni, svokallað Nordic Marina, sem tengir saman þá aðila á Norðurlöndum sem vinna að samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda.

Því miður er ekki tími hér til að nefna alla þá aðila á nafn sem hafa lagt gott til þessara mála. Stjórnvöld hafa þó gert margt gott og ekki síður fyrirtæki. Ég skynja mikinn áhuga hjá atvinnulífinu í loftslagsmálum og lausnum á því sviði. Ég tel að auðvitað megi gera enn betur og reyna að nálgast málin á heildstæðan hátt og langar því af þessu tilefni að nefna að skipaflotinn tekur undir alvarleika þessa og er meðal þeirra fyrirtæki sem eru að skrifa akkúrat á þessari mínútu undir yfirlýsingu um loftslagsmál í Höfða. Þar sameinast hundrað fyrirtæki um að vilja sporna gegn losun.

Við erum að leggja til og vinna að nýrri aðgerðaáætlun eða vegvísi um að minnka losun frá skipum og sjávarútvegi. Þar er horft til orkuskipta og annarra lausna. Ég vonast til að kynna í aðdraganda Parísarfundarins slíkan vegvísi þar sem meðal annars er litið til mögulegra ívilnana, eins og hv. þingmaður spyr um. Almennt má þó segja að loftslagsvæn tækni sé komin skemur á veg í skipum en bílum og ég vonast til að geta stuðlað að því að Íslendingar verði þar í fararbroddi.

Það hefur náðst góður árangur við að rafvæða fiskimjölsverksmiðjur sem hafa notað olíu. Það vísar vonandi veginn fyrir skipaflotann. Menn telja að flutningsgeta rafmagns torveldi enn frekari uppbyggingu á þessu sviði.

Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa við þessu góða máli og vona að við getum öll unnið saman á Alþingi að því að ryðja brautina fyrir loftslagsvæna tækni og lausnir, bæði hvað varðar skip og annað.