145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

orkuskipti skipaflotans.

279. mál
[17:20]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að minna á svar sem ég fékk frá hæstv. umhverfisráðherra um losun á koltvísýringi og skiptingu eftir atvinnugreinum. Þetta er svar sem ég fékk á þessu þingi í máli nr. 103 á þskj. 215. Í því kemur fram að heildarlosun á koltvísýringi frá sjávarútvegi er ekki nema 3%. Mér finnst að ætti að halda því til haga í þessari umræðu.

Hins vegar velti ég fyrir mér hvort menn hafi ekki brennt sig á ívilnunum í orkumálum og ekkert lært af reynslu síðustu ára þar sem stjórnmálamenn hafa markvisst reynt að stýra þróun í eldsneytismálum. Ég get nefnt tvö dæmi frá síðasta kjörtímabili, annars vegar lög um endurnýjanlegt eldsneyti sem hafa fært milljarða kostnað á heimilin í landinu með engum tilætluðum árangri fyrir umhverfið að því er virðist og hins vegar áhersluna á að koma landsmönnum yfir á dísilbíla sem er nú talið að hafi verið afar misráðin aðgerð.

Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að standa vörð um (Forseti hringir.) jafnræði og gagnsæi í atvinnulífinu að þessu leyti.