145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

orkuskipti skipaflotans.

279. mál
[17:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Heiða Kristín Helgadóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherrunum svörin. Það er augljóslega margt að gerast í þessu eins og maður hefur tilfinningu fyrir gagnvart umhverfismálum og umhverfisvernd almennt. Í því samhengi langar mig að hvetja ráðherrann til að huga vel að þeim þrýstingi sem er á að setja raforkulínur þvert yfir hálendið til að flytja rafmagn héðan af suðvesturhorninu þar sem við höfum mikið af því og reyna líka að horfa til þess að einmitt út af öllum þessum þrýstingi fleygir tækninni mjög hratt fram. Það kann vel að vera að einhverjar tæknilausnir, sem mjög margir kalla eftir í hinum stóra heimi, muni koma til með að geta leyst eitthvað af þeim vandamálum sem eru vissulega alvarleg fyrir þá sem búa á svæðum þar sem þeir sem njóta ekki alveg sömu gæða og við á suðvesturhorni landsins.

Annars langar mig að taka undir að við séum í fararbroddi. Að einhverju leyti get ég alveg skilið áhyggjur hv. þingmanns sem kom hingað á undan mér, Sigríðar Andersen, um að ívilnanir geti oft verið misráðnar, en ef vel er haldið utan um þær og þær eru fókuseraðar held ég að þær geti skilað sér að einhverju leyti. Þá er ég aðallega að tala um að setja pening í tækni og þróun og rannsóknir. Þá er kannski ekki rétt að nota orðið ívilnanir en mér finnst að hið opinbera eigi að setja stóraukna peninga í rannsóknir og þróun á endurnýtanlegri orku og orkugjöfum og undanskilja ekki skipaflotann vegna þess að við erum fiskveiðiþjóð og höfum verið og eigum að geta verið í fararbroddi þegar kemur að þessari þróun.