145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

undirbúningur búvörusamninga og minnkuð tollvernd.

161. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þremur liðum um undirbúning búvörusamninga og minnkaða tollvernd.

Í fyrsta lagi er spurt:

Hvernig miðar viðræðum ríkisvaldsins og Bændasamtakanna um gerð nýrra eða framlengdra búvörusamninga?

Það er auðvitað þannig óháð öllu öðru og þó ekkert nýtt hefði komið til þá hefði verið orðið mjög brýnt á þessu hausti að móta stefnuna til einhverra ára hvað varðar framtíðarstarfsumhverfi landbúnaðarins. Garðyrkjusamningur er að renna sitt skeið á enda í lok þessa árs, mjólkursamningur á næsta ári og sauðfjárræktarsamningur ári síðar.

Í öðru lagi er spurt:

Er að vænta grundvallarbreytinga á fyrirkomulagi stuðnings við innlenda búvöruframleiðslu eða annarra mikilvægra breytinga á málaflokknum og ef svo er, í hverju felast þær breytingar?

Eðlilegt er að forvitni ríki um það hvort að taka eigi á málum sem talsvert hafa verið rædd í tengslum við framkvæmd búvörustefnunnar. Nefna má aðgerðir til að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mönnum sú gagnrýni eða þær áhyggjur sem menn hafa af því að þegar við lýði er framleiðsluréttur eða stuðningsréttur samkvæmt samningi og tilteknir aðilar eru handhafar að honum, þá fær sá réttur á sig í framseljanlegu kerfi verðmiða sem myndar þröskuld fyrir kynslóðaskipti. Svo ekki sé talað um nýja aðila, þá sem ekki eiga þess kost að taka við búi af foreldrum sínum eða komast inn í greinina þannig, í gegnum tengsl, sem getur verkað mjög hamlandi.

Í öðru lagi hafa áleitnar spurningar verið að vaxa um til dæmis samþjöppun í greininni. Hversu langt vilja menn sjá þá þróun ganga að við hverfum frá hefðbundnum fjölskyldubúum sem grunneiningu yfir í meira verksmiðjukenndan búskap í stórum stíl með aðkeyptu vinnuafli o.s.frv.?

Í þriðja lagi er spurt:

Er ætlunin að bjóða þeim landbúnaðargreinum, sem verða fyrir mestri röskun á starfsskilyrðum vegna nýgerðra tollasamninga við Evrópusambandið, aðlögunar- eða stuðningssamninga líkt og gerðir voru við garðyrkjuna á sínum tíma?

Það sætti gagnrýni að þeir samningar við Evrópusambandið voru undirritaðir án samráðs við bændur og án þess að það væri tekið inn í þær viðræður sem voru, eða áttu að vera, í gangi um heildarstarfsskilyrði greinarinnar. Nú er að vísu sagt, sem er til bóta, að þetta verði látið haldast í hendur, þ.e. að reynt verði að ná nýjum búvörusamningum áður en Alþingi fær til umfjöllunar hinn gerða tollvörusamning. En ég bakka ekki með þá skoðun mína að hitt hefði verið betra og það hefði verið vænlegri vígstaða að þetta hefði fæðst sem ein sameiginleg lausn.

Ég bíð spenntur eftir að heyra svör hæstv. ráðherra, ekki síst í ljósi þess að nú lifir skammt af árinu og reyndar nokkuð um liðið síðan þessi fyrirspurn kom fram. En ég veit að það er ekki við neinn sérstakan að sakast að dregist hefur nokkuð að finna tíma til að svara henni.