145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

undirbúningur búvörusamninga og minnkuð tollvernd.

161. mál
[17:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er gott að fá tækifæri til að ræða þá vinnu sem stendur yfir varðandi búvörusamninga.

Ég get sagt um það að vinnan við þá gengur býsna vel. Samninganefnd ríkisins hefur fundað vikulega, reyndar oft í viku, allt frá 3. september síðastliðnum með samninganefndum Bændasamtaka Íslands. Samkvæmt skipunarbréfinu var gert ráð fyrir að þeirri vinnu mundi ljúka í síðasta lagi 1. febrúar 2016, en vonir standa til, og hafa staðið til, að það geti orðið fyrr og jafnvel um og upp úr áramótum og því fyrr því betra.

Einnig var spurt um hvort fyrirhugaðar væru grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi stuðningsins við innlenda framleiðslu og í hverju þær fælust. Þá er það ekkert launungarmál og ég hef sagt það í þessum ræðustól nýlega við sambærilega umræðu að það eru fjölmörg markmið sem við setjum og að sá galli sem er á núverandi fyrirkomulagi, sem kom einmitt fram í máli hv. fyrirspyrjanda, þ.e. að þröskuldar fælust í því að menn þyrftu að kaupa sér kvóta til að komast inn í greinina. Það væri augljós galli við fyrirkomulagið og mikilvægt væri að minnka þann hvata til þess að stuðningur ríkisins mundi eigngerast og verða þar af leiðandi þröskuldur við nýliðaskipti eða kynslóðaskipti.

Það er kannski fullsnemmt að fullyrða um þær grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi stuðningsins sem unnið er með. Þó að viðræðurnar hafi gengið vel eru þær auðvitað ekki komnar á endastöð. Hins vegar er það markmið stjórnvalda að stuðningsformið verði með þeim hætti að sem minnst fjármagn fari út úr greininni og eins til að auðvelda ungu fólki að hefja búskap í sveitum landsins. Þá hefur það líka verið markmið að stuðningurinn sé ekki eins einsleitur og hann hefur verið. Við getum tekið grein eins og nautgriparækt sem hefur liðið fyrir það á tímabili núverandi samnings að enginn stuðningur eða mjög lítill hefur farið til þeirrar greinar og við sjáum kannski afleiðingar þess í því að hér er verulegur skortur á innlendu nautakjöti á markaði sem mikil eftirspurn er hins vegar eftir.

Einnig hefur verið fjallað um fjölskyldubú. Ég hef sagt það í þessum ræðustól að það eru engin verksmiðjubú á Íslandi og fjölskyldubúið hlýtur að verða áfram kjarninn í starfsemi okkar og stuðningur ríkisins þar að lútandi beinist fyrst og fremst að því. Það má meðal annars gera með því að setja þak á greiðslur og það hefur verið eitt af þeim markmiðum sem ég hef rætt um.

Síðan var spurning frá fyrirspyrjanda hvort ætlunin væri að bjóða öðrum greinum sem verða fyrir mestri röskun á einhvers konar ívilnun líkt og gert var í garðyrkjunni á sínum tíma. Ég verð eiginlega að biðja fyrirspyrjanda að fara aðeins dýpra í það hvað hann á við með því. Þegar aðlögunarsamningurinn var gerður við garðyrkjuna árið 2002 voru tollar felldir niður á hluta af ylræktuðu grænmeti og í staðinn teknar upp beingreiðslur. En á sama tíma voru einnig teknar upp niðurgreiðslur á raforkuverði þannig að það yrði sambærilegt við það sem væri í boði erlendis, t.d. í Noregi og Kanada. Í apríl 2005 breyttist þessi niðurgreiðsla í niðurgreiðslu á dreifingarkostnaði orkusölufyrirtækjanna. Á liðnum árum höfum við verið að reyna að viðhalda þeim stuðningi eins og hann var þegar hann var hvað bestur fyrir greinina með því að hækka þær greiðslur.

Í aðlögunarsamningunum frá 2002 var jafnframt boðið upp á tímabundna úreldingu eldri gróðurhúsa næstu fimm árin. Einnig voru greidd ákveðin framlög til kynningar-, rannsókna-, þróunar- og endurmenntunarverkefna.

Um þetta má kannski segja almennt að ekki var samið um tollaniðurfellingu eða tollalækkun á svokölluðum viðkvæmum vörum, svo sem kjöti, mjólkurvörum og unnum vörum, heldur var samið um tollkvóta og gagnkvæmni þar sem því var við komið. Tollkvótar sem samið var um kunna í einhverjum tilfellum að setja verðþrýsting á einstaka vörur, ég sé það til að mynda varðandi svínakjöt, en þess ber þó að geta að naut, svín og alifuglakjöt sem þegar er flutt inn er svipað af magni til og umsamdir kvótar verða þegar samningur hefur að fullu tekið gildi, þ.e. að þremur til fimm árum liðnum. Það er því hægt að halda því fram að sá verðþrýstingur sem um ræðir sé að einhverju leyti kominn fram.

Í búvörusamningunum sem nú standa yfir hafa verið viðraðar hugmyndir um að hluti af stuðningnum verði greiddur út á annað en framleiðslutengingar. Til dæmis hafa verið viðraðar hugmyndir um að auka gripagreiðslur eins og hér hefur verið nefnt, jafnvel greiðslur út á uppskeru af landi, fjárfestingarstuðning og fleira sem kæmi þá til með að nýtast öllum búgreinum. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða betur.

Varðandi tímasetninguna á tollasamningum (Forseti hringir.) verður að segjast eins og er að tollasamningar eru alþjóðasamningar og það hefði auðvitað ekki verið hægt að halda þeim gangandi á sama tíma og menn væru (Forseti hringir.) með búvörusamninga hér innan lands. Þess vegna var það í mínum huga mjög mikilvægt að þeir lægju fyrir áður en menn færu inn í búvörusamningana til þess að menn gætu þá tekið við þeim áskorunum sem þar kæmu og þeim tækifærum sem þar væru.