145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

undirbúningur búvörusamninga og minnkuð tollvernd.

161. mál
[17:36]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg. Þegar verið er að tala um búvörusamningana hefur mér fundist að það mættu kannski fleiri koma að þeim samningum en bara Bændasamtökin og ríkið. Það hafa fleiri hagsmuna að gæta.

Mér fannst margt skynsamlegt sem hæstv. ráðherra talaði um, ég held að það hafi verið á búnaðarþingi. Hann talaði um hvort það væri hugmynd að hafa regnhlífarsamning fyrir allar greinar og talaði fyrir aukinni fjölbreytni líka og jafnvel að opna á það að greitt yrði fyrir framleiðslu. Ég hjó eftir þessum málflutningi hjá hæstv. ráðherra og fannst hann vera þarna á réttri braut og vil að hann viti að hann á að minnsta kosti stuðningsmann í mér.

Eins var hann að tala um styrki til mjólkurframleiðslu, hvort að á löngu tímabili þyrfti kannski eitthvað að fara í að breyta því fyrirkomulagi, án nokkurra kollsteypa þó.

Mér fannst þetta allt vera í rétta átt en vil ítreka að mér finnst óeðlilegt að það komi ekki fleiri, eins og hagsmunasamtök neytenda, að búvörusamningunum.