145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

undirbúningur búvörusamninga og minnkuð tollvernd.

161. mál
[17:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og ítreka það sem kom fram í máli mínu. Mér fannst ég reyndar heyra samhljóm hjá þingmönnum, bæði um að stuðningurinn færi í meira mæli og auðvitað helst allur til þeirra sem hann er ætlaður, þ.e. bænda í landinu, til þess að efla hér matvælaframleiðslu, efla landbúnað og efla störfin. Það er líka besta byggðamálið ef við náum um leið að efla framleiðsluna hringinn í kringum landið.

Ég vil nefna verkefnið Matvælalandið Ísland sem við erum að hrinda í gang þar sem við köllum til grasrótarinnar, hvar sem hún er nú stödd, og finnum tengingu hennar við ferðaþjónustuna og matarmenninguna til að geta selt vörur okkar hérlendis og búa líka til grundvöll fyrir að selja þær erlendis.

Það er rétt sem hefur komið fram og ég hef heyrt það áður að menn telji eðlilegt að fleiri komi að þessum samningum. Ríkisvaldið gerir samninga við bændur og ríkinu ber auðvitað að horfa til hagsmuna margra, ekki síst neytenda í landinu. Það er eitt af markmiðum búvörusamninga allra tíma að horfa til þess hvernig þeir muni nýtast neytendum í hollum og góðum matvælum með miklu matvælaöryggi og á eins hagkvæmu verði og hægt er.

Ég vil að lokum taka undir að allur landbúnaður í heild sinni þarf að byggjast á sjálfbærri þróun, þ.e. á menningarlegum, umhverfislegum og samfélagslegum grunni en líka efnahagslegum. Það verður líka að vera efnahagsleg sjálfbærni í því að reka landbúnað á Íslandi. Stundum er svolítið erfitt að samhæfa þessi markmið, en það er markmið búvörusamninganna núna að reyna að gera það sem best. Ég heyri að ég á talsvert af stuðningsmönnum hér í þinginu, a.m.k. í þeim þingmönnum sem eru hér í dag. Ég hlakka til að geta komið með afurðina inn í þingið þegar hún liggur fyrir.

Það er rétt að nefna lokum, af því að það var nefnt að garðyrkjusamningurinn rynni út um (Forseti hringir.) áramót, að búið er að framlengja hann um eitt ár til þess að reyna að koma öllum undir einn hatt eins og hér hefur líka verið nefnt.