145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

geislavirk efni við Reykjanesvirkjun.

145. mál
[17:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur beint til mín nokkrum spurningum um geislavirk efni við Reykjanesvirkjun. Í fyrsta lagi er spurt um hvers vegna heilbrigðisráðherra upplýsti ekki almenning fyrr um að geislavirk efni hefðu mælst í borholum virkjunarinnar og á hvaða rökum sú ákvörðun var byggð. Til að svara þessu ætla ég fyrst að rekja málavexti.

Á samráðsfundi Geislavarna og velferðarráðuneytisins 22. apríl í vor lét stofnunin ráðuneytið vita að fyrirhugaðar væru mælingar vegna útfellinga í rörum hjá HS Orku. 29. júní upplýsti stofnunin ráðuneytið með minnisblaði um að niðurstöður mælinganna staðfestu uppsöfnun náttúrlegra geislavirkra efna við borholu virkjunarinnar á Reykjanesi. Efni minnisblaðs stofnunarinnar til ráðuneytisins um málið snerist um að upplýsa ráðuneytið um að veita þyrfti HS Orku sérstakt leyfi fyrir förgun útfellinganna, samkvæmt 7. gr. laga um geislavarnir.

Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upphafslínur minnisblaðs Geislavarna til ráðuneytisins en þær hljóða svo:

„Náttúrleg geislavirk efni eru í öllu okkar umhverfi. Vitað er að þau geta safnast upp í útfellingum í rörum við borholur — þekkt í olíu- og gasiðnaði sem og við hagnýtingu jarðhita til orkuframleiðslu.“

Síðan er því lýst í minnisblaðinu hvaða mælingagildi leiða til þess að útfelling er skilgreind sem geislavirk og sagt frá því að ef svo sé þurfi að huga að því hvernig útfellingunni skuli fargað. Loks er sagt frá því að mælingarnar hafi leitt í ljós að við nokkrar borholur HS Orku við Reykjanesvirkjun hafi útfellingin mælst geislavirk í þeim mæli að huga þurfi að leyfisveitingu vegna förgunar. Enn fremur er sagt frá því að geislunin sé mjög orkulítil og stöðvist í nokkrum sentímetrum lofts.

Á fundi með Geislavörnum ríkisins, þar sem þessi mál voru rædd, kom fram að sérfræðingar stofnunarinnar teldu geislunina svo litla að fólki stafaði ekki hætta af. Var það meðal annars rökstutt með því að geislavirku efnin væru bundin í útfellingum í föstu formi, þau væru á takmörkuðu svæði og í lokuðu kerfi og mundu því ekki losna til umhverfisins með affallsvatni frá virkjuninni, í gufu eða á annan hátt. Geislavarnir ríkisins gerðu ráðuneytinu frekari grein fyrir þessu máli í lok júlí og í byrjun ágúst og var áherslan alltaf sú sama, að um litla geislavirkni væri að ræða en þó í þeim mæli að förgun væri leyfisskyld og að Geislavarnir hefðu eftirlit með förguninni.

Hv. þingmaður spyr hvers vegna ég hafi ekki upplýst almenning um þetta mál fyrr en raun varð og á hvaða rökum sú ákvörðun var byggð. Með spurningunni er væntanlega verið að vísa til 10. gr. laga um upplýsingarrétt um umhverfismál sem kveður á um að stjórnvöldum sé skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi fólks eða dýra.

Því er til að svara að sérfræðingar Geislavarna — þar með talið forstjóri stofnunarinnar, sem er afar fær vísindamaður og nýtur trausts og virðingar á alþjóðavettvangi — töldu ekki, telja ekki og hafa aldrei talið að hætta stafaði af þeirri geislavirkni sem hér um ræðir. Í því ljósi var aldrei talið tilefni til eða ástæða að upplýsa almenning um málið af hálfu Geislavarna ríkisins og í ráðuneytinu bar slíkt aldrei á góma enda hef hvorki ég né starfsfólk mitt nokkra einustu forsendur til þess að vefengja með nokkrum hætti mat okkar færustu sérfræðinga á sviði geislavarna.

Þegar Geislavarnir ríkisins birtu fréttatilkynningu um þetta mál á vef stofnunarinnar 16. september var það gert vegna fjölmiðlaumfjöllunar í þeirri von að opinber umræða yrði málefnaleg og rétt. Þann 18. september birti velferðarráðuneytið fréttatilkynningu á vef sínum ásamt skriflegum gögnum sem ráðuneytið hafði fengið frá Geislavörnum vegna málsins, annars vegar 29. júní og hins vegar 4. ágúst. Þetta var gert svo að hver sem vildi gæti kynnt sér samskipti stofnunarinnar og ráðuneytisins vegna þessa máls og þá ekki síst vegna fyrirspurna fjölmiðla.

Hv. þingmaður spurði síðan hvað liði rannsóknum á því hvort um frekari geislamengun væri að ræða í öðrum jarðvarmavirkjunum eða í drykkjarvatni á svæðinu og hvort einhverjar niðurstöður liggi fyrir. Eftir að niðurstöður mælinga á borholum HS Orku á Reykjanesi voru staðfestar í sumar hófu Geislavarnir að meta styrk náttúrulegra geislavirkra efna í útfellingum við jarðvarmavirkjanir hér á landi. Mælingar hafa verið gerðar við virkjanir á Hellisheiði, á Nesjavöllum og í Svartsengi. Við Hellisheiðarvirkjun fundust í einu sýni merki um aukna geislavirkni en vegna þess hve virknin var lítil og nálægt greiningarmörkum var ákveðið að senda sýnið til nákvæmra greininga í Finnlandi.

Mælingar við Nesjavallavirkjun hafa ekki sýnt aukna geislavirkni og heldur ekki við Svartsengi. Sýni frá jarðvarmavirkjun við Kröflu og Þeistareyki, sem Geislavarnir ríkisins fengu frá Landsvirkjun, hafa ekki sýnt aukna geislavirkni en óskað hefur verið eftir stærri sýnum til að gera á þeim gamma-rófgreiningu. Útfellingar í borholum eru hreinsaðar reglulega og við síðustu hreinsun hjá Reykjanesvirkjun voru tekin sýni og þau (Forseti hringir.) send til greiningar á Geislavarnastofnun Finnlands. Aukin náttúrleg geislavirkni mældist hærri en í sýnum sem mæld voru fyrr á árinu, næstum tvöfalt hærri. Þessar niðurstöður gefa hins vegar ekki tilefni til breytinga á vinnulagi eða á leyfi til hreinsunar.