145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

geislavirk efni við Reykjanesvirkjun.

145. mál
[17:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra hans svör hér, en ég hef athugasemdir við þau, sérstaklega vegna þess að hæstv. ráðherra vitnar í sérfræðinga því til stuðnings að ekki hafi verið hætta á ferðum þegar hann tók þá ákvörðun að upplýsa ekki almenning fyrr en seint og um síðir um málið.

Sannleikurinn er sá að það hefur komið fram í fjölmiðlum að sérfræðingar voru ekki á einu máli um það hvort upplýsa bæri almenning um þetta mál. Það voru sérfræðingar á vegum Geislavarna sem töldu að ástæða væri til að upplýsa almenning þegar um þessa geislamengun.

Hæstv. ráðherra vísar líka í 10. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál og telur að í þeirri grein sé að finna skjól fyrir stjórnvöld að veita ekki upplýsingar til almennings nema um hættu sé að ræða, nema að almannahætta sé á ferðum. Ég var ekki endilega að hugsa um 10. gr. Það er vissulega rétt að hún kveður á um alveg skýlausa skyldu stjórnvalda til að gefa upplýsingar ef hætta er á ferðum, annaðhvort væri nú. En lögin kveða engu að síður á um að þessi skylda stjórnvalda er til staðar þótt ekki sé hætta á ferðum.

Samkvæmt markmiðsgrein laganna er markmið þeirra að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða eru geymdar fyrir þeirra hönd, og eins og segir í d-lið 1. gr., að tryggja rétt almennings til að fá upplýsingar um umhverfismál og kveða á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar um umhverfismál. Þannig að skjólið, (Forseti hringir.) að þarna sé nauðsynlegt að vísa til almannahættu, er haldlítið séu lögin skoðuð. Því miður verð ég að líta svo á að hæstv. ráðherra hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína gagnvart almenningi í þessu máli.