145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

tengsl ráðherra við fyrirtækið Orku Energy.

223. mál
[18:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér segir hv. þingmaður „reiddi fram 50 milljónir“. Ég verð að segja eins og er að þetta er furðulegt. Það sem gerðist var það að íbúð var seld. Afsalinu af því var þinglýst. Ég hef aldrei heyrt talað um að menn standi í einhverju spillingarmakki með því að þinglýsa slíkum gjörningi. Það er alveg rétt að ég seldi íbúðina mína. Það er ekki maklegt af hálfu hv. þingmanns, virðulegi forseti, að orða þetta með þeim hætti sem hún gerði.

Varðandi það að orðið hafi til í menntamálaráðuneytinu viljayfirlýsing, þá er það ekki mjög nákvæm frásögn. Það sem gerðist í því máli var að ég hafði samband vegna þess við orkumálastjóra þegar horft var til allra þeirra samninga og viljayfirlýsinga sem hafa verið gerðar í samskiptum Íslands og Kína á sviði jarðhita og beindi til hans að skoða þá möguleika fyrir okkur á grundvelli þess. Það hefur komið fram opinberlega af hálfu orkumálastjóra hver afskipti hans voru af því og að sú viljayfirlýsing var unnin annars vegar af orkumálastjóra, hins vegar af utanríkisráðuneytinu og síðan í samvinnu við vísindamálaráðuneytið í Kína, en aldrei á nokkrum tímapunkti í mennta- og menningarmálaráðuneytinu eins og hv. þingmaður ýjaði að þar sem hann sagði, með leyfi forseta: „varð til í menntamálaráðuneytinu“. Þetta er rangt. Það var allt öðruvísi að þessu máli staðið. Ég ítreka þetta, virðulegi forseti.

Það er hárrétt að ég vann hjá þessu fyrirtæki þegar ég var utan þings. Það er líka hárrétt að við hjónin seldum íbúð okkar. En það var gert með því að þinglýsa afsalinu. Það lá fyrir og eru opinber gögn. Ekkert óeðlilegt við það. Má ég benda hv. þingmanni á að í þeim reglum sem GRECO-nefndin setur, sem þykir nú ganga einna lengst í kröfum um gagnsæi, er sérstaklega tekið fram að lán vegna húsnæðiskaupa þurfi ekki að tilgreina þegar kemur að hagsmunaskráningu þingmanna, ekki fremur en neysluskuldir og hvað má þá segja, virðulegi forseti, um húsaleigu?

Þess vegna þykir mér þessi setning hv. þingmanns um að reiddar hafi verið fram 50 milljónir ekki makleg af hálfu þingmannsins, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, þegar hitt liggur fyrir og er auðvelt að kynna sér.