145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fyrirframgreiðslur námslána.

310. mál
[18:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Guðrún Helgadóttir) (P):

Virðulegi forseti. Núverandi fyrirkomulag við úthlutun námslána frá Lánasjóði íslenskra námsmanna hefur verið mörgum til trafala. Námslánin eru einungis borguð út eftir að nemandi hefur lokið í hið minnsta 22 ECTS-einingum á einni önn, en fullt nám telst vera 30 einingar. Það þýðir að frá því að stúdent hefur nám við háskóla þangað til námslán eru borguð út hefur námsmaður að jafnaði engar tekjur.

Ef við gefum okkur að nám við háskóla eigi að vera svo krefjandi að það teljist vera full vinna ef ekki meira þá er varla hægt að gera þær kröfur til námsmanna að þeir vinni með skóla, auk þess sem núverandi námsmannafyrirkomulag takmarkar hversu mikið stúdentar mega vinna með skóla. Margur nýstúdentinn sem hefur nám að hausti þarf því að hafa safnað sér inn ríkulega á liðnu sumri til þess að hafa ofan í sig og á þangað til námslán detta í hús, þ.e. í síðasta lagi 15. janúar eftir áramót. Þeir sem koma af vinnumarkaði þurfa að hafa safnað sér vel yfir hálfri milljón til að geta séð fyrir sér og sínum svo að þeir hafi efni á því að fara í háskóla. Þannig er bara staðan í dag. Margir leita eftir stuðningi fjölskyldu sinnar, búa heima hjá foreldrum og eru fjárhagslega háðir fjölskyldunni fyrstu annirnar. Það eru ekki allir svo heppnir að geta leitað á náðir vandamanna eða verið á framfæri foreldra þegar þeir hefja nám. Fjölmargir stúdentar eru því háðir bönkunum um fyrirframgreiðslu námslána í formi yfirdráttar sem bera vexti og þegar námslánin eru borguð út fara þau upp í yfirdráttinn og leikurinn hefst á ný. Til þess að stúdentar hafi efni á því að halda lífi yfir önnina eru þeir háðir bankalánum.

Eins og staðan er í dag þá er engin leið fyrir stúdenta að fá fyrir fram greidd námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem regluverk stofnunarinnar er stíft og gerir ráð fyrir að allt nám sé eins, að allar námsleiðir séu eins, en svo er því miður ekki. Það er því algengt að stúdentar vítt og breitt um landið lendi á milli steins og sleggju vegna þess að ekki má mikið út af bregða að eitthvað fari úrskeiðis, svo sem ef námskeið fellur niður, stúdentar fá falleinkunn í prófi eða stúdentar segja sig úr námskeiðum vegna persónulegra ástæðna. Það er ekki óalgengt að stúdentar lendi illa í því að hafa fengið fyrir fram greidd námslán frá bankanum, en svo þegar kemur að gjalddaga hefur stúdentinn ekki uppfyllt þau skilyrði sem þarf til þess að hljóta námslán. Ástæðurnar þar að baki geta verið jafn margar og stúdentar eru mismunandi. Stúdentar eru margir hverjir fastir í vítahring fyrir fram greiddra námslána sem felast í yfirdrætti frá bankanum og eru í mikilli óvissu um það hvort LÍN muni síðar borga þeim þegar kemur að gjalddaga yfirdráttarins.

Því langar mig til þess að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann telji að fyrirframgreiðslu námslána sé best komið fyrir hjá einkabönkum (Forseti hringir.) og hvort hæstv. ráðherra telji eðlileg að nemendur greiði yfirdráttarvextir á slíkri fyrirframgreiðslu námslána sinna. Að lokum langar mig einnig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort til (Forseti hringir.) standi að gera einhverjar breytingar á þessu fyrirkomulagi með endurskoðuðum lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ef svo er, (Forseti hringir.) í hverju felast þær?