145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fyrirframgreiðslur námslána.

310. mál
[18:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ég held að við getum verið sammála um og það er mat flestra að aðkallandi sé að lög og reglugerðir um starfsemi lánasjóðsins verði teknar til endurskoðunar og eru ástæðurnar af margvíslegum toga.

Lánasjóður íslenskra námsmanna starfar eftir lögum nr. 21/1992, auk þess fjallar reglugerð nr. 478/2011 enn frekar um starfsemina. Árlega samþykkir stjórn lánasjóðsins úthlutunarreglur sem eru staðfestar af ráðherra, en þær eru ígildi reglugerðar. Loks fjallar reglugerð nr. 79/1998 um starfsreglur málskotsnefndar lánasjóðsins.

Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að vanskil við sjóðinn hafa aukist umtalsvert, en gjaldfallnar ógreiddar afborganir hækkuðu um 690 millj. kr. á milli áranna 2013 og 2014 og eru nú um 5 milljarðar. Vanskil um síðustu áramót námu 2,3% af heildarstöðu lánasafnsins sem í lok árs 2014 var um 213,1 milljarður. Staða afskriftasjóðs Lánasjóðs íslenskra námsmanna í lok árs 2014 var 41,5 milljarðar.

Þegar fjallað er um samfélagslegt hlutverk lánasjóðsins er oftast bent á þátt lánakerfisins í að jafna möguleika námsmanna með ólíkan félags- og efnahagslegan bakgrunn á háskólanámi. Í lögum um lánasjóðinn segir til að mynda að hlutverk sjóðsins sé, með leyfi forseta, „að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags“. Þetta er mikilvægt hlutverk sjóðsins en þó takmarkast samfélagslegt hlutverk hans ekki eingöngu við það. Lánasjóðurinn hefur einnig verið tæki til að fjárfesta í háskólamenntuðu vinnuafli og alþjóðlegum tengslum þekkingarsamfélagsins.

Í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar frá ágúst 2014 við úttekt á skýrslu stofnunarinnar frá árinu 2011 er mennta- og menningarmálaráðuneytið hvatt til að hraða undirbúningi að nýju frumvarpi til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nefnd um endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna var skipuð um síðustu mánaðamót og hefur nú þegar hafið störf. Nefndinni er ætlað að vinna að gerð heildstæðs lagafrumvarps um Lánasjóð íslenskra námsmanna ásamt greinargerð og skal nefndin horfa sérstaklega til atriða eins og hvernig mögulegt sé að bregðast við aukinni fjárhagslegri áhættu Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hvernig megi efla möguleika Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að takast á við nýjar og breyttar áskoranir í alþjóðlegu háskólaumhverfi, hvernig megi treysta jöfn tækifæri til náms óháð efnahag og með hvaða hætti megi beita lánareglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að stuðla að bættum framgangi í námi. Í vinnu sinni skal nefndin hafa víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila er varðar breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Fram undan, þegar þessi nefnd hefur skilað drögum sínum, tekur við víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila. Um er að ræða feikilega mikilvægan þátt í menntakerfi okkar og nauðsynlegt að fram fari mjög víðtækt samráð þar um. Ég veit að bæði þegar kemur að námsmannahreyfingum og öðrum þá mun ekki standa á okkur að leita eftir samráði við þá aðila til þess að tryggja að það verði sem mest sátt um breytingarnar. Þó er það alltaf svo og ekki hægt að tryggja að allir verði sáttir um allt, en vonandi er hægt að ná fram nægilega góðri sátt til þess að hægt sé að leiða málið til lykta á þingi.

Í ljósi þessa er rétt að segja, virðulegi forseti, að spurningar fyrirspyrjanda tengjast allar starfi og þeim viðfangsefnum nefndarinnar sem hér er verið að ræða um. Þessum fyrirspurnum hv. þingmanns hefur verið sérstaklega komið á framfæri við nefndarmenn.

Ég tel ekki rétt að svo komnu máli að ég láti í ljós efnislegar áherslur væntanlegra breytinga á starfsemi og starfsháttum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og nefndin fái svigrúm til að ljúka sínum störfum sem ég vonast til að geti orðið í janúar 2016. Ég ítreka að þegar sú vinna liggur fyrir mun halda áfram samráð við þá sem að þessu máli koma og eiga hagsmuni undir. Það varðar mjög miklu til þess að hægt sé að vonast til þess að þetta mál fái brautargengi í þinginu og mögulegt verði að leiða það til lykta.