145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins.

323. mál
[18:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í október á síðasta ári lagði sú sem hér stendur fram þingsályktunartillögu um eflingu náms í mjólkurfræði. Málið komst til nefndar og var sent til umsagnar. Þær fimm umsagnir sem bárust voru allar jákvæðar í garð ályktunarinnar og talað um sem mikilvægt skref til að viðhalda þekkingu á úrvinnslu mjólkur sem hér er að finna, en einnig til að nýtast innan annarra greina. Jafnframt var í þeim umsögnum lýst yfir áhyggjum af iðnaðinum ef ekkert væri gert í þeim málum. Umsagnirnar sem komu voru frá Landssambandi kúabænda, Mjólkurfræðingafélagi Íslands, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Þar sem málið er talið brýnt og komst ekki í gegnum síðasta löggjafarþing var það lagt fram aftur á yfirstandandi þingi með fleiri flutningsmönnum um miðjan september síðastliðinn. Á sama tíma fær sú sem hér stendur, fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, fregnir af því að fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins sé umboðslaus og hafi verið það síðan í febrúar, eða milli framlagningar þingsályktunartillagna um eflingu náms í mjólkurfræði. Eins og þetta blasir við mér er sagt að menntamálaráðherra eigi að skipa formann nefndarinnar áður en aðrir séu tilnefndir í hana og það hafi ekki verið gert. Þá hafi umboð þeirra sem fyrir sátu ekki verið framlengt og því sé nefndin í raun ekki starfandi.

Með fyrrgreindri þingsályktunartillögu og umsögnum sem um hana bárust á síðasta þingi og svo með framlagningu hennar að nýju hefði hæstv. ráðherra átt að vera ljóst að áfram yrði unnið að henni. Því er mér spurn hvað hæstv. ráðherra hefur ætlað sér að gera í þessum málum.

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvert hlutverk fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins sé, hverjir eigi fulltrúa í henni, hvort umboðið sé í raun útrunnið og ef svo er, hvort ráðherra hafi áætlað að endurnýja umboð nefndarinnar.