145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[13:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Við erum harmi slegin yfir þessum hörmulegu voðaverkum og spyrjum eðlilega margra spurninga um orsakir og afleiðingar og hver viðbrögð okkar eigi að vera. Við vitum ekki og skiljum alls ekki hvað fer fram í huga þeirra sem fara fram með þessum hætti, hvorki þeirra sem leggja á ráðin né þeirra sem vinna ódæðisverkin. Gjörðin er hin sama, að ógna, myrða, hræða og valda ringulreið, vekja hatur, kalla fram hefnd og koma róti á huga okkar. Hún er sprottin af rótum öfgahyggju og tilgangurinn er að ráðast á og grafa undan gildum frelsis og lýðræðis og sundra samhug og samvinnu Evrópuþjóða.

Við hljótum að spyrja: Hvað getum við gert? Hvað eigum við að gera?

Órjúfanlegur hluti þess frelsis sem við höldum svo hátt á lofti er vissa um að við séum örugg um að frelsi okkar sé tryggt. Það þarf að meta stöðuna vel og af yfirvegun og raunsæi. Ég legg áherslu á að þegar við tölum um öryggi ríkisins erum við að tala um öryggi okkar sjálfra, öryggi sem er lykillinn að því frjálsa samfélagi sem við viljum halda í hávegum. Fyrst og fremst þurfum við upplýsingar, réttar upplýsingar og tala út frá gögnum. Lögregluyfirvöld í Evrópuríkjum og alþjóðalögreglan skiptast á upplýsingum um mögulega ógn við öryggi ríkja. Við erum hluti af því samstarfi. Við fáum upplýsingar og ábendingar frá þar til bærum yfirvöldum og þannig getum við kannað hvort einhverjar slóðir liggja hingað eða grunur sé um að einhverjir sem tengjast alþjóðlegum glæpasamtökum eða öfgasamtökum séu færðir hingað til lands. Þá vitneskju notum við til að meta öryggi landsins. Þetta er kerfið sem við notum og við metum stöðuna út frá því.

Við, ríkisstjórnin og yfirvöld öryggis- og löggæslumála, höfum rýnt hvort og hvernig á að bregðast við þessum aðstæðum. Það er mat ríkislögreglustjóra að ekki þurfi að hækka viðbúnaðarstigið umfram það sem gert var í febrúar eftir árásirnar á Charlie Hepdo. Það er þó enginn vafi á að hætta á hryðjuverkum á Vesturlöndum er töluverð og við þurfum að vera á varðbergi.

Fjallað hefur verið nokkuð um Schengen-samstarfið í tengslum við þessa atburði. Ég hef sagt það og er enn á þeirri skoðun að Schengen-samstarfið hafi reynst vel og það skipti okkur máli að taka þátt í því. Schengen-samstarfið byggir á trausti og hugmyndum um frelsi Evrópubúa til að ferðast óheft um allt svæðið. Ég vek athygli á því að við getum hvenær sem er í sjálfu sér aukið eftirlit á landamærunum í samræmi við aðstæður. Það verður skoðað á hverjum tíma og er skoðað á hverjum tíma. Öryggismál og landamæravarsla þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Við erum hluti af umheiminum og við reiðum okkur á þetta nána samstarf bæði með Schengen og alþjóðlegri löggæslu. Boðaður hefur verið aukafundur Schengen-ríkja á föstudaginn kemur þar sem ræða á hvaða skref skuli stíga í kjölfar atburðanna í París á föstudaginn var og hvernig bregðast skuli við.

Hæstv. forseti. Á sama tíma og þessir atburðir gerast tekst Evrópa á við mikinn straum flóttamanna sem flýja undan ógnaratburðum heima fyrir. Það er venjulegt fólk, venjulegar fjölskyldur sem leita skjóls undan ógninni. Allar líkur eru á að þessi staða verði viðvarandi fyrirsjáanlega framtíð. Það er afar mikilvægt að haga undirbúningi í samræmi viðað.

Niðurstaðan er því þessi: Við fylgjumst mjög vel með. Við tökum alvarlega þá hættu sem beinist að Vesturlöndum. Við fáum upplýsingar, eigum samstarf við nágrannalönd og gerum það sem við getum til að tryggja öryggi borgara okkar. Við þurfum að tryggja nægan mannafla til almennrar löggæslu og landamæraeftirlits.

Hæstv. forseti. Við skulum umfram allt fara fram af yfirvegun og standa saman að því að tryggja frelsi og þau lýðræðislegu gildi sem við viljum viðhafa. Það er ekkert núna sem bendir til þess að hér heima stafi meiri ógn en áður eða meiri hætta.