145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[14:05]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Óttinn má aldrei verða fylginautur okkar þegar kemur að viðbrögðum vegna hryðjuverka. Samfélag má aldrei láta hryðjuverk knýja sig til breytinga á grunngildum sínum, lýðræðinu, frelsinu og mannréttindum. Ef við látum undan hafa hryðjuverkamenn sigrað. Gildi vestrænna þjóða mega aldrei víkja fyrir hryðjuverkaógninni. Við höfum í grunninn byggt upp þjóðfélag sem okkur þykir vænt um. Þeirri hugsun mega hryðjuverk aldrei breyta.

Hryðjuverk hafa ekkert með trúarbrögð að gera. Þau byggja á hatri, fáfræði, umburðarleysi og skorti á virðingu fyrir öðrum gildum. Þau eru aðför að samfélaginu og þeirri samfélagsgerð sem við búum við. Þau eru viðbrögð manna sem láta hatrið ráða för. En vörum okkur á umræðunni. Að hryðjuverkamenn fremji ódæði í vestrænu ríki þýðir ekki að allir flóttamenn séu óalandi og óferjandi. Það þýðir ekki að það búi hryðjuverkamaður innra með mörgum þeirra og að setja verði sérstakt eftirlit um hvern og einn þeirra. Það þýðir ekki að vestræn ríki eigi að bregðast skyldum sínum sem tengjast mannréttindum og mannúð. Okkur ber að taka á móti flóttamönnum og sinna þeim eins vel og við getum, bæði vegna alþjóðlegra skuldbindinga okkar en ekki síður vegna þess að okkur ber sem manneskjum að sinna meðbræðrum okkar sem eiga um sárt að binda.

Við verðum samt að bregðast við hryðjuverkaógninni. Það væri barnaskapur að gera það ekki. Skylda okkar er að tryggja öryggi borgaranna með öllum ráðum. Samúð okkar er með frönsku þjóðinni, skylda okkar er gagnvart þeim sem lifa. Ódæðisverkin í Frakklandi eiga að kenna okkur eitt. Við erum ekki lengur eyland sem nýtur alþjóðlegrar friðhelgi sem slíkt. Við verðum að sinna þessum málefnum af ábyrgð og einurð. Látum óttann aldrei ráða för og látum flóttamenn ekki gjalda fyrir hryðjuverk. Þá hafa hryðjuverkamenn náð fram því markmiði sínu að veikja vestræn samfélög og þau gildi sem þau byggja á.