145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[14:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér algerlega hræðilega atburði. Hér erum við að velta vöngum yfir því hvað sé á ferðinni. Ég fagna sérstaklega þeim tóni sem er í umræðunni að ekkert okkar fer út í einfaldar skýringar, hvorki á því hvað gerðist né því hvernig bregðast eigi við. Stríðsástandið í Mið-Austurlöndum er ekki lengur bundið við það svæði. Það hefur verið þar lengi en nú er komið að því að það er farið að snerta okkur með miklu áþreifanlegri hætti en áður. Flóttamönnum fjölgar sem flýja óbærilegt ástand á svæðinu. Við þurfum skyndilega að bregðast við ófriðinum sjálf. Hryðjuverkaárásir hafa verið og eru hluti af ástandi sem þessu og ber að skoða í því ljósi.

Málið er hér enn flóknara vegna þess hver gerandinn er, samtök sem vilja kenna sig við íslamskt ríki en eru án ríkisfangs. Okkar verkefni er að tryggja og bera ábyrgð á því hvernig við komum fram hvert gagnvart öðru, að við sýnum ábyrgð, skilning og yfirvegun, að við búum til samfélag þar sem allir eru velkomnir og hafa tilgang, hlutverk og verkefni og líka að vera rödd út fyrir landsteinana, rödd sem boðar frið, ábyrgð í umhverfismálum, kvenfrelsi og jöfnuð. Með þau sjónarmið að leiðarljósi finnum við rétta tóninn í viðbrögðum við þessum hörmungum eins og öllum öðrum. Hér er við glæpasamtök að glíma en líka viðburði sem verður að skoða í pólitísku samhengi, innrásin í Írak 2003 er hluti af atburðarásinni og við verðum að horfa á hana um leið.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að valda uppnámi, þess vegna er eina rétta viðbragðið að bregðast við með yfirvegun. Markmiðið er að kalla fram hatur. Þá er eina viðbragðið að bregðast við af kærleika. Við verðum að vera boðberar yfirvegunar og friðsamlegra lausna en viðfangsefnið fram undan er ójöfnuðurinn í heiminum, baráttan við fátækt. Hún verður viðvarandi og sífellt meira aðkallandi og þessi umræða er hluti af því.