145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[14:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir ræðumenn hér í dag lýsi ég miklum harmi vegna þeirra atburða sem áttu sér stað í París í síðustu viku og raunar einnig vegna þeirra hryðjuverka annarra sem framin hafa verið á undanförnum dögum og vikum. Ber þar hæst sprengjuárásin í Beirút og hryðjuverkin gagnvart rússnesku farþegaþotunni á Sínaí.

Þessir atburðir, og kannski ekki síst atburðirnir í París, færa nær okkur það mikla ófriðarástand sem ríkt hefur á síðustu árum fyrir botni Miðjarðarhafs og raunar víðar, en einkum í Sýrlandi og Írak. Nú er að koma í ljós það sem margir óttuðust, að þessir viðburðir á því svæði höfðu áhrif miklu víðar og miklu nær okkur en í upphafi virtist. Viðbrögð stjórnvalda hér á landi hafa, eins og komið hefur fram í umræðunni, verið varfærin en mótuð af festu og það er þannig sem við þurfum að bregðast við aðstæðum af þessu tagi. Við þurfum að gera það af yfirvegun og taka ákvarðanir á vel grunduðum forsendum. Við getum ekki horft fram hjá því að ógn af hryðjuverkum getur náð til Íslands og við þurfum auðvitað að tryggja að þær stofnanir hérlendis sem hafa hlutverki að gegna í því að verjast árásum og aðgerðum af því tagi hafi til þess mannafla, búnað og fjármagn til að bregðast við með réttum hætti.

Auðvitað verðum við að gæta þess, eins og fram hefur komið hjá öðrum ræðumönnum í dag, að í viðbrögðum okkar gætum við alltaf meðalhófs (Forseti hringir.) og gætum þess að ganga ekki á þau grundvallarréttindi borgaranna sem samfélag okkar er byggt á.