145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins um traust. Við gerum okkur öll grein fyrir að við hrunið varð jafnframt hrun á trausti, þ.e. hrun á trausti til stjórnmálamanna, stofnana og annarra innviða samfélagsins.

Það er nú þannig að það er ekki síst hlutverk Alþingis að vinna að því að auka traust. Okkar öflugasta verkfæri í þeirri vinnu er að leikreglur séu gagnsæjar og miði við jafnrétti. Í því samhengi vil ég nefna vöktun á umhverfisáhrifum stóriðjunnar. Ég ætla í þessu máli ekki að taka neina sérstaka afstöðu til stóriðjunnar eða ræða það neitt sérstaklega. Ég ætla hins vegar að taka afstöðu til hvort við erum sátt, eða hvort ég er sáttur við þær leikreglur sem eru í gildi varðandi vöktun á umhverfisáhrifum stóriðju. Við þurfum að spyrja okkur öll: Erum við sátt við það að stóriðjufyrirtækin sjálf sjái um að vakta og mæla áhrif starfseminnar á nánasta umhverfi?

Tíminn, aukin þekking og kjarkur hafa hjálpað okkur fram veginn í aukinni náttúruvernd. Unga fólkið er meðvitað og gerir auknar kröfur um að náttúran fái í auknum mæli að njóta vafans. Ég vona að við séum komin á þann stað og höfum þann metnað í að byggja upp traust að við séum tilbúin til að endurskoða hver og hvernig er staðið að vöktun á umhverfisáhrifum stóriðjunnar og atvinnustarfsemi hvers konar.


Efnisorð er vísa í ræðuna