145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú á eftir ætla fatlaðar konur á vegum Tabú og Kvennahreyfingar ÖBÍ að afhenda innanríkisráðherra, velferðarráðherra og Alþingi kröfuskjöl til þess að mótmæla hárri tíðni ofbeldis gagnvart fötluðum konum og brotalömum í réttarkerfinu.

Jafnframt ætla þær að skila skömminni sem þær telja sig hafa borið alla ævi en eiga ekki. Þær beina orðum sínum að Alþingi og ráðuneyti og ætla að vera hér fyrir utan húsið klukkan fjögur. Þetta er hluti af „Beauty Tips“-byltingunni og „Free the Nipple“ sem verið hefur mikið undanfarið í umræðunni og er eitt af því sem við konur stöndum að til þess að standa saman gegn ofbeldi.

Það er inngróið í íslenska menningu að konur og stelpur eigi bara að passa sig. Ég vek athygli á því að það er „hashtag“ við þetta málefni ef fólk vill fylgjast með því, „#ég er ekki ég“.

Í gær voru úrslitin í Skrekki, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík, jafnréttisákall sem bar yfirheitið „Elsku stelpur“. Mig langar að lesa niðurlagið. Stelpurnar komust afskaplega vel að orði og ég hvet ykkur til þess að kíkja á atriðið sem er í öllum fjölmiðlum dagsins í dag. Í lokin hljómar það þannig:

Elsku feðraveldi,

veistu, þegar þú segir mér að róa mig

og halda bara kjafti

hveturðu mig áfram

til að öskra af öllu afli.

Þú getur ekki stoppað það sem þú veist að er að koma,

þú skilur ekki erfiðið, þú ert ekki kona. […]

Við höfum barist svo lengi

fyrir ótal sjálfsögðum hlutum

að baráttan í sjálfu sér

er orðin sjálfsagður hlutur.

En við biðjum ykkur, stelpur

að halda alltaf áfram,

að gleyma ekki skiltunum

sem stóðu upp úr göngum,

að gleyma aldrei konunum

sem hrópuðu í myrkri,

að gleyma síst öllum stelpunum

sem voru dónar og tíkur og fyrir.

Ég hvet ykkur enn og aftur til þess að taka á móti fötluðum konum hér fyrir utan í dag, sem ætla að skila skömminni, um leið og ég hvet ykkur til að kíkja á þetta myndband á netinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna