145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða mál sem er mér hugleikið. Það er skortur á þekkingu á störfum þingsins úti í þjóðfélaginu. Mér finnst Alþingi og stjórnmálin fá gríðarlega mikla umfjöllun og margar eru nú klippurnar úr þessum sal. En ég finn að það er lítil þekking á því sem er í gangi hér, og ég tala bara út frá sjálfri mér, ég vissi mjög lítið um Alþingi áður en ég settist á þing. Ég fann það þegar ég kom hér inn.

Mér finnst að sjónvarpsstöð eins og RÚV, sjónvarpið okkar, ætti að vera með fréttaskýringaþætti eða fræðsluþætti um það sem er í gangi hér. Til dæmis velti ég fyrir mér hvort að fólk almennt viti hver munurinn er á þingsályktunartillögu og frumvarpi. Í hvaða feril fara mál þegar þau koma í þingið? Hver má flytja mál á Alþingi? Hver er munurinn á þingmannamálum og stjórnarfrumvörpum? Af hverju skiptir máli að þingmálin komi snemma fyrir þingið? Af hverju vorum við að kvarta yfir því um daginn að ráðherrar kæmu ekki upp og töluðu um málin? Hvernig vinna nefndirnar? Hvað er umsagnaferli? Er það gríðarlega mikilvægt fyrir okkur? Veit fólk að allir geta sent inn umsagnir við þingmál? Hvers vegna er svona mikið óskipulag á íslenska þinginu? Það væri reyndar hægt að taka þrjá þætti bara um það, hvernig væri hægt að bæta það og hvað sé til ráða.

Svo er annað. Ég hef orðið vör við ákveðinn misskilning. Mér finnst margir oft ekki gera mun á framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu. Ég hef orðið að benda fólki á að ég er 10. þm. Norðausturkjördæmis og sit í minni hluta. Ég get ekki búið til lagafrumvarp og komið því í gegnum þingið. Það er hlutverk framkvæmdarvaldsins sem eru ráðherrarnir sem sitja hérna fyrir aftan mig.

Mér finnst við þurfa að gera miklu betur hér. Mér finnst umræðan vera yfirborðskennd og mér finnst jafnvel oft gæta misskilnings í máli þeirra sem segja fréttir af þinginu. Mér finnst þetta vera hluti af ástæðunni fyrir því að traust (Forseti hringir.) á Alþingi er ekki nægilegt að við erum oft ekki að tala um sömu hlutina.


Efnisorð er vísa í ræðuna