145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[14:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér öðru sinni fyrir þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, geri það því miður í skugga hryðjuverkanna í París um nýliðna helgi. Þeir hrottafengnu atburðir minna okkur á að öryggi er ekki sjálfgefið og að óskiljanleg ódæðisverk geta átt sér stað nærri okkur í tíma og rúmi. Vil ég því nota tækifærið hér og árétta samúðarkveðjur íslenskra stjórnvalda og samstöðu með frönsku þjóðinni á erfiðum tímum.

Árásirnar í París beindust ekki einvörðungu að frönskum stjórnvöldum og franskri þjóð. Þær beinast gegn siðmenningu okkar og gildum, gegn frelsi, lýðræði og rétti borgara og í raun beinast þær gegn lífsmynstri okkar og líferni sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Ég efast ekki um að árásirnar munu hafa langvinnar afleiðingar en ég hef engu að síður lagt áherslu á mikilvægi þess að fyrstu viðbrögð okkar og alþjóðasamfélagsins verði yfirveguð og hófstillt. Við megum ekki láta óhæfuverk teyma okkur af leið sem er einmitt það sem þessir aðilar mundu helst vilja, aðilar sem kenna sig við ríki íslams en eiga þó ekkert sameiginlegt með íslam.

En það er heldur ekki kostur í stöðunni að láta sem ekkert sé. Hér er um verulega ógn að ræða og hugmyndafræði sem fær aðila til að fremja slík grimmdarverk að orð fá vart lýst. Þessir atburðir og því miður aðrir á undanförnum missirum minna okkur á að gefa öryggismálum hér heima ríkari gaum, stilla saman strengi og ná sem mestri sátt um meginlínur öryggis- og varnarmála. Með það í huga samþykkti Alþingi hinn 16. september 2011 þingsályktun þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, um að setja á fót þingmannanefnd með fulltrúum allra flokka sem þá sátu á Alþingi til að vinna tillögur til utanríkisráðherra um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Nefndin hóf störf árið 2012 undir formennsku hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Sjálfur sat ég í nefndinni og get borið vitni um hið góða starf og þá breiðu sátt sem einkenndi vinnu nefndarinnar.

Nefndin skilaði tillögum sínum hinn 20. febrúar 2014 ásamt bókunum einstakra þingflokka. Það er full ástæða til að þakka á ný hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem og öðrum fulltrúum sem sæti áttu í nefndinni fyrir þeirra framlag. Einnig vil ég koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem þátt tóku í vinnunni að öðru leyti.

Mjög reynir á í öryggisumhverfi Evrópu og hefur verið svo undanfarin missiri. Með ólöglegri innlimun Rússlands á Krímskaga á síðasta ári verða í rauninni ný kaflaskil í stjórnmálasögu Evrópu og áfram er staðan mjög viðkvæm í austanverðri Úkraínu. Á sama tíma heldur uppgangur hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við ríki íslams áfram. Hart er barist í Sýrlandi og í Írak og fyrir utan voðaverkin í París hafa samtökin lýst yfir ábyrgð á sprengingunni sem varð í rússnesku farþegaþotunni yfir Sínaískaga svo annað nýlegt dæmi sé tekið. Hér er sömuleiðis, virðulegi forseti, fyllsta ástæða til að votta rússneskri þjóð samúð og samstöðu.

Ástandið í Sýrlandi og fyrir botni Miðjarðarhafs hefur svo orðið til þess að mestu fólksflutningar frá tímum síðari heimsstyrjaldar eiga sér stað þessa mánuðina sem aftur reyna á innviði Evrópuríkja og samstöðu þeirra. Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin brugðist myndarlega við þeirri þróun og mun ekki láta sitt eftir liggja en stórauknum fjármunum verður varið í aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur á þessu ári og því næsta.

Þótt nokkuð sé um liðið síðan þingmannanefndin lagði fram tillögur sínar og örar breytingar hafi orðið á öryggismálum Evrópu eins og ég hef reifað eru tillögur nefndarinnar engu að síður traustur grunnur til að móta stefnu um þjóðaröryggi. Sú heildarsýn sem þar kemur fram er vel ígrunduð og sniðin að þörfum Íslands sem herlauss ríkis. Þingmál þetta markar því vissulega tímamót enda er hér í fyrsta skipti í lýðveldissögunni mörkuð heildstæð stefna um þjóðaröryggi. Mikilvægt er að um hana fari fram málefnaleg og yfirveguð umfjöllun og um hana ríki sem breiðust sátt.

Áður en ég vík að ályktunartexta tillögu minnar og þeim stefnumiðum sem þar eru sett fram vil ég fjalla stuttlega um þær ógnir og áhættuþætti sem eru grundvöllur tillögunnar. Þau gögn sem við höfum stuðst við eru áhættumatsskýrsla frá árinu 2009, skýrsla þingmannanefndarinnar, mat embættis ríkislögreglustjóra á hættu af völdum hryðjuverka og síðast en ekki síst greiningar Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkja þess.

Haustið 2007 fól utanríkisráðherra þverfaglegum starfshópi að taka saman áhættumat fyrir Ísland og var skýrslu þess efnis skilað til ráðherra í mars 2009. Í áhættumatsskýrslunni er litið til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta. Þar er öryggishugtakið skilgreint með heildrænum hætti og þjóðaröryggið út frá því. Í áhættumatinu eru reifaðir sérstaklega 15 áhættuþættir sem þó er ekki forgangsraðað. Í fyrsta lagi fjalla það um áhættuþætti sem gæti falið í sér tilvistarógn, þ.e. efnahagsógnir, farsóttir, náttúruhamfarir, hernað, beitingu gereyðingarvopna og hryðjuverk. Í öðru lagi er sjónum beint að skipulagðri glæpastarfsemi og mansali sem grefur undan samfélagsöryggi, einstaklinga og réttarríki. Í þriðja lagi er fjallað um áhættuþætti sem snerta öryggi grunnvirkja, loft- og landhelgi, þ.e. netöryggi, öryggi orkukerfisins, borgaralegt flugöryggi, siglingaöryggi, mengunarvarnir, matvæla- og vatnsöryggi, vegaöryggi og fjarskiptaöryggi.

Í niðurstöðum starfshópsins eru 23 almennar ábendingar varðandi stefnumótun í öryggismálum þar sem í fyrsta lið er kallað eftir mótun skýrrar þjóðaröryggisstefnu sem taki mið af útvíkkaðri skilgreiningu öryggis. Áhættumatsskýrslan er vissulega að mörgu leyti barn síns tíma og senn tímabært að endurskoða einstaka þætti hennar eða áhættumatið í heild. Engu að síður er það mitt mat að flest atriði hennar standist ágætlega skoðun enn í dag. Allir þeir áhættuþættir sem hún fjallar um eru sem fyrr í fullu gildi en síðan þá höfum við tekið hryðjuverkaógnir og hernaðarógnir til sérstakrar skoðunar.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar frá febrúar 2014 kemur fram að Ísland búi við stöðugleika og öryggi. Í skýrslunni er ógnum og áhættuþáttum ekki forgangsraðað með beinum eða línulegum hætti. Þar er hins vegar gerð grein fyrir helstu hættum sem kunna að steðja að og notast við sveigjanlegri aðferð í því tilliti sem byggist á þremur flokkum. Styðst þessi þingsályktunartillaga jafnframt við þá flokkun.

Í flokki eitt er að finna þá hættu sem talið er að helst beri að setja í forgang með hliðsjón af viðbúnaði og fjármunum. Þar eru umhverfisvá eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum, netógnir og skemmdarverk á innviðum samfélagsins og náttúruhamfarir. Í flokki tvö er að finna ógnir sem eru settar skör lægra en þarfnast engu að síður fullrar athygli. Þar eru skipulögð glæpastarfsemi, fjármála- og efnahagsöryggi, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttir og hryðjuverk. Í þriðja flokki er að finna hættur sem ólíklegt er að hér steðji að en mundu á hinn bóginn vega að fullveldi og sjálfstæði landsins með slíkum hætti að nauðsynlegt yrði að gera ráðstafanir gegn þeim. Í þessum flokki er hernaðarógn.

Embætti ríkislögreglustjóra uppfærði í febrúar síðastliðnum mat af völdum hryðjuverka og öðrum stórfelldum árásum. Í því mati er hættustigi skipað í fjóra flokka, lágt, í meðallagi, hátt og hæst. Í matinu kemur fram að óvissan um hryðjuverkaógn á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum fer vaxandi. Hættustig á Íslandi er metið í meðallagi sem er hækkun um einn flokk frá fyrra mati. Samkvæmt þessu er því talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innan lands eða í heimsmálum. Í samræmi við þetta mat er hryðjuverkaógn í öðrum áhættuflokki í þjóðaröryggisstefnunni sem er hækkun úr lægsta flokki samkvæmt skýrslu þingmannanefndarinnar.

Að mati ríkislögreglustjóra er þrátt fyrir hryðjuverkaárásirnar í París ekki þörf á frekari uppfærslu á flokkuninni. Að sama skapi má ljóst vera að hættumat, þar með talið af hryðjuverkaógn, kemur reglubundið til endurskoðunar.

Hvað hernaðarógn áhrærir teljum við hana vera takmarkaða gagnvart Íslandi. Þetta byggjum við á fjölmörgum greiningum Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkja þess. Hernaðarógnin er því í lægsta áhættuflokki í þjóðaröryggisstefnunni. Þróun mála í Evrópu staðfestir hins vegar að sýna þarf ýtrustu árvekni við mat á hernaðarógn og við munum því á komandi mánuðum og missirum skoða sérstaklega hvort hækka þurfi áhættuflokkun hernaðarógnar. Viðbúnaður þarf að taka mið af mati og ógnum og hröð framvinda getur breytt slíku mati með litlum fyrirvara.

Virðulegi forseti. Stefna um þjóðaröryggi sem hér er lögð fram er byggð upp með sama hætti og norðurslóðastefna Íslands sem Alþingi samþykkti í mars 2011. Hér eru dregin upp tíu hnitmiðuð áhersluatriði í ályktunartexta sem verða leiðarljós í öryggis- og varnarmálum á komandi árum. Þau eru óbreytt frá fyrri framlagningu með þeirri undantekningu að umhverfishagsmunir á norðurslóðum eru tilgreindir sérstaklega.

Í inngangsorðum tillögunnar er ítrekað að þjóðaröryggi byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafa grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi: lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála.

Þá segir að grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hafi burði né vilja til að ráða yfir her og tryggi öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki innan alþjóðastofnana. Stefnan taki til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta og felist í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki.

Þjóðaröryggi Íslands mun áfram hvíla á þeim styrku stoðum sem hafa tryggt öryggi og varnir Íslands nærfellt alla lýðveldissöguna, aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Umhverfis- og öryggishagsmunir Íslands á norðurslóðum eru undirstrikaðir sérstaklega, bæði er lýtur að alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.

Um aðildina að Atlantshafsbandalaginu segir að hún verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.

Um varnarsamninginn segir að hann tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli hans þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir. Enn fremur er í stefnunni lögð áhersla á að efla og þróa enn frekar samvinnu Norðurlanda og annað grannríkjasamstarf sem lýtur að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á því sviði.

Um virka utanríkisstefnu segir að tryggja beri víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlegri lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.

Um varnarviðbúnað segir að tryggja þurfi að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Með vísan til tillagna þingmannanefndarinnar um að stefnan taki ekki eingöngu til varnarstefnu heldur einnig til almannaöryggis og virkrar utanríkisstefnu er kveðið á um að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sem mótuð er af almannavarna- og öryggismálaráði, sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Með því er einnig tekið tillit til þeirrar breiðu skilgreiningar á öryggishugtakinu sem áhættumatsskýrslan frá 2009 byggist á. Almannavarna- og öryggisstefna er á forræði innanríkisráðherra og er mótun hennar nýlega lokið.

Netöryggismálum er síðan gerð sérstaklega skil þar sem segir að stuðla beri að auknu netöryggi með áframhaldandi uppbyggingu á getu Íslands og með alþjóðlegu samstarfi. Þess má geta að stefna stjórnvalda í net- og upplýsingaöryggismálum var kunngerð í apríl síðastliðnum sem og aðgerðaáætlun til þriggja ára.

Það hefur löngum verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að á Íslandi skuli ekki vera kjarnavopn og þingsályktun þessu til áréttingar var samþykkt á Alþingi árið 1985. Til frekari áréttingar á þeirri stefnu er í tillögunni lagt til að Alþingi álykti að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Friðlýsingin nái til íslensks lands og landhelgi að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga líkt og hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, og skuldbindinga innan stofnana og samninga sem Ísland á aðild að.

Í ljósi þess að framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum varðar mörg ráðuneyti og stofnanir er nauðsynlegt að koma á virku samráði og samhæfingu opinberra aðila. Í því skyni er því hér lagt til að sett verði á laggirnar þjóðaröryggisráð sem forsætisráðherra veiti forstöðu. Sett verði sérstök lög um stofnun þjóðaröryggisráðs þar sem nánar verði kveðið á um samsetningu þess, hlutverk og skipulag auk ákvæða er tryggi samþættingu viðfangsefna þjóðaröryggisráðs og núverandi almannavarna- og öryggismálaráðs. Í tillögunni er gert ráð fyrir að utanríkisráðuneytið hafi samráð við innanríkisráðuneytið um samningu löggjafarinnar. Hlutverk þjóðaröryggisráðs verði að meta reglulega ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og hafa eftirlit með framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar. Í tillögunni er gert ráð fyrir að ráðið standi fyrir endurskoðun stefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Frumkvæðið að endurskoðun geti komið frá ráðinu sjálfu en Alþingi geti einnig farið fram á endurskoðun hennar. Þá tel ég brýnt að nýtt þjóðaröryggisráð mundi ráðast í gerð nýs og heildstæðs áhættu- og ógnarmats.

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu á að ítreka að utanríkisstefna Íslands og þjóðaröryggi grundvallast á vestrænni samvinnu og sterkum Atlantshafstengslum, aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Vaxandi varnarsamstarf Norðurlandanna er fagnaðarefni og styrkir þennan grundvöll enn frekar.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir auknum framlögum til varnarmála m.a. í nafni samstöðu aðgerða Atlantshafsbandalagsins og aukins stuðnings við þær þjóðir bandalagsins sem halda úti reglubundinni loftrýmisgæslu á Íslandi. Níu aðildarríki hafa nú staðið 23 vaktir frá því að fyrirkomulag loftrýmisgæslu var sett á fót árið 2007. Á næsta ári munu Tékkland, Norðmenn og Bandaríkin sinna loftrýmisgæslu á Íslandi og árinu 2017 er fyrirhugað að fjölga loftrýmisgæsluvöktum úr þremur í fjórar eins og í raun var lagt upp með í ákvörðun Atlantshafsbandalagsins á sínum tíma.

Þá ber að horfa til þess að á næsta ári verða tíu ár liðin frá því að varnarliðið fór frá Íslandi. Öryggishorfur á norðanverðu Atlantshafi hafa breyst á þessum tíma og því eðlilegt og ábyrgt að skoða hvort eitthvað í öryggisumhverfinu kalli á uppfærslu á því fyrirkomulagi sem við lýði er og samið var um árið 2006. Við þurfum hverju sinni að horfa til hagsmuna okkar í öryggis- og varnarmálum sem eru vitanlega samofnir hagsmunum annarra bandalagsríkja og aðlaga okkur að þeim veruleika sem við blasir hverju sinni. Ég vil þó árétta hér að engar slíkar viðræður eiga sér stað og Alþingi og utanríkismálanefnd yrðu ávallt upplýst um þau skref sem stigin yrðu varðandi þetta.

Á þessum tíma hefur Ísland tekið á sig verulega auknar ábyrgðir í öryggis- og varnarmálum og þar til bærir aðilar, einkum Landhelgisgæsla Íslands og embætti ríkislögreglustjóra, sinnt varnartengdum verkefnum af fagmennsku og prýði. Það var því sérstaklega ánægjulegt þegar ég og þáverandi hæstv. innanríkisráðherra undirrituðum ásamt forstöðumönnum þessara stofnana samning á síðasta ári sem kemur á betri og varanlegri skipan öryggis- og varnarmála og festir í sessi formlegt samskipta- og samráðsferli á milli forsætis-, utanríkis- og innanríkisráðuneytis.

Eins og fram kemur í tillögu minni er brýnt að á Íslandi sé til staðar nauðsynlegur varnarviðbúnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum því að styrkja þær stofnanir og hlúa að þeim mannauði sem við höfum fjárfest í á umliðnum árum.

Virðulegi forseti. Mikilvægasta skylda íslenskra stjórnvalda er að tryggja öryggi borgaranna og stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð af ígrundaðri festu. Með þessari tillögu sem ég mæli hér fyrir er mótuð stefna sem treystir og eflir undirstöðu þjóðaröryggis Íslands til langs tíma á grundvelli virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis.

Að svo mæltu legg ég til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar.