145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra lýsti því skilmerkilega hvernig sérstök nefnd lagði grunninn að þessari tillögu. Sú nefnd var eins og hæstv. ráðherra lýsti skipuð að tillögu minni sem samþykkt var á Alþingi á síðasta kjörtímabili.

Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra þegar hann þakkar sérstaklega hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að hafa stýrt með svo listilegum hætti þverpólitískri nefnd sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem þessi tillaga byggir á. Það var eiginlega pólitískt kraftaverk og mun halda nafni þeirrar ágætu þingkonu á lofti á meðan þjóðaröryggi verður rætt í þessum sölum. [Hlátur í þingsal.] Vinnan í nefnd hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur byggðist ekki bara á hinu þrönga öryggismati fortíðarinnar, sem einkum laut að ógnum við fullveldi og hernaðarógnum, heldur var unnið í samstöðu allra flokka á grundvelli þess sem stundum hefur verið kallað hið útvíkkaða öryggishugtak. Þar voru teknar inn aðrar ógnir en einungis hernaðarógnir eða beinar ógnir við fullveldið. Þar á meðal var t.d. loftslagsváin og margvíslegar vár sem kunna að steðja að þjóð eins og okkar. Um það er fjallað í mjög ítarlegu máli í skilagrein nefndarinnar. Þess sér líka stað í greinargerðinni.

Þess vegna kemur mér svolítið á óvart, og það er eina gagnrýni mín á tillöguna sjálfa, að þrátt fyrir að í greinargerð séu raktir þrír áhættuflokkar og einungis einn þeirra varði hernaðarógn og hefðbundna fullveldishættu þá er af þeim tíu tillögum sem hér liggja fyrir engin sem beinlínis varðar loftslagsógnina. Ég tel að það sé ekki fallið til að halda þeirri samstöðu sem var um málið. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji (Forseti hringir.) ekki æskilegt að þetta komi skýrar fram í lokagerð þessarar tillögu þegar þingið hefur lokið vinnu sinni með hana.