145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri að sjálfsögðu ekki lítið úr þeirri athugasemd sem hv. þingmaður kom fram með og tel í rauninni mikilvægt að utanríkismálanefnd fjalli einmitt um þær áherslur sem hv. þingmaður nefndi, hvort flokkun og röðun þurfi að vera með einhverjum öðrum hætti.

Það sem við gerum einfaldlega er að taka þá vinnu sem unnin var í nefndinni og lista hana upp samkvæmt því sem við teljum best eftir að nefndin skilaði af sér. Við leggjum þar af leiðandi þessa tillögu fram. Það er mjög eðlilegt, út frá þeim tíma sem liðinn er frá því að nefndin skilaði af sér þar sem við náðum ekki að klára þetta á síðasta þingi, að fara í gegnum þessa tillögu aftur.

Eins og ég kom að í máli mínu er alveg ljóst að það er viðvarandi verkefni að halda þjóðaröryggisstefnunni við og endurskoða í rauninni hverja þætti. Það kemur fram í stefnunni að eitt meginhlutverk þjóðaröryggisráðs sé að endurskoða þessa stefnu. Það er líka tekið skýrt fram að Alþingi geti ef það vill haft þar ákveðnu hlutverki að gegna og haft frumkvæði að því að endurskoða hlutina.

Þetta er lagt fram samkvæmt bestu vitund og bestu samvisku. Að sjálfsögðu á svo nefndin eftir að fjalla ítarlega um málið.