145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei litið á hæstv. ráðherra sem neinn sérstakan hernaðarhauk. Mér sýnist einhverjir sem séu hugsanlega haldnir meiri hernaðarhyggju en hann kunni að hafa haft áhrif á lokagerð tillögunnar. Í öllu falli tel ég, þó að ég sé sammála tillögunni, að það sé sláandi munur á milli skilagreinar nefndar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og tillögunnar sjálfrar. Svo það liggi fyrir mun ég beita mér fyrir breytingum á tillögugreinunum sjálfum með það fyrir augum að þetta jafnvægi verði betra. Ég held líka að það sé mikilvægt til að við höldum þessari samstöðu.

Svo ég víki að öðru, herra forseti. Hæstv. ráðherra gerði eðlilega grein fyrir lofsverðum þætti tillögunnar sem varðaði kjarnorkuvopnalegt hlutleysi Íslands í tilteknum greinum. Ísland hefur hvarvetna á opinberum vettvangi skipað sér í raðir þeirra þjóða sem hafa barist gegn kjarnorkuvopnum. Það höfum við líka gert innan Atlantshafsbandalagsins. Það var engin breyting sem gerð var í minni tíð, þ.e. tíð þeirrar vinstri stjórnar sem sat síðast. Eitt af því fyrsta sem mér var kynnt af embættismönnum mínum þegar við fórum yfir mál sem vörðuðu þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu var einmitt að Ísland hefði alltaf verið á þeim væng bandalagsins sem vildi draga úr kjarnorkuvopnum. Við vorum þar meðal þjóða eins og Þýskalands, Lúxemborgar og Noregs.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki þverstæða á milli þess sem hann leggur áherslu á í tillögunni og svo aftur þess verknaðar sem hann lét framkvæma í sínu nafni fyrir nokkrum dögum eða vikum þegar hann lét Ísland bókstaflega greiða atkvæði gegn banni við kjarnorkuvopnum og sat þar ekki einu sinni hjá eins og þó ýmsar þjóðir innan NATO? Er ekki þverstæða milli tillögunnar og þess gernings? Ég spyr hann líka: Er ekki þar um slíkt fráhvarf (Forseti hringir.) að ræða frá fyrri stefnu margra ríkisstjórna að honum hefði borið að koma og að minnsta kosti gera uppskátt um það í utanríkismálanefnd?