þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.
Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Fyrst vil ég nefna að eina breytingin sem var gerð á framlagningu málsins núna frá því á síðasta þingi er að við lyftum umhverfismálum á norðurslóðum upp. Í öðru lagi vil ég ítreka að grunnur að öryggismálum okkar er vera okkar innan Atlantshafsbandalagsins og tvíhliða samningar okkar við Bandaríkjamenn. Það er vel tekið fram í þessari tillögu.
Varðandi kjarnorkuvopnin dylst engum að Ísland er andvígt kjarnorkuvopnum. Við erum andvíg tilraunum með kjarnorkuvopn og andvíg því að þau séu í rauninni til. Við höfum stutt við ákveðið ferli innan Sameinuðu þjóðanna við að vinna gegn prófunum með kjarnavopn og vinna og stuðla að því að þeim verði eytt. Það eru tveir, þrír samningar sem við höfum lagt áherslu á.
Sú tillaga sem hér um ræðir var ein af sjö sem voru lagðar fram. Við höfðum hugsað okkur að styðja eina tillögu sem Íranar höfðu ætlað að leggja fram en drógu því miður til baka. Við ýmist sátum hjá eða greiddum atkvæði á móti. Ástæða þess að við greiddum atkvæði á móti í umræddu tilviki var einfaldlega sú að við töldum að í tillögunni væri lagt til að sett yrði af stað nýtt ferli sem mundi leiða til þess að við stigjum skref aftur á bak. Það breytir ekki afstöðu okkar til kjarnorkuvopna. Við vitum það, ágætir þingmenn, að ýmsar tillögur koma fram, sem hafa góða fyrirsögn en innihaldið er eitthvað sem þarf að rannsaka og fara í gegnum. (Gripið fram í.) Við töldum að þetta yrði skref aftur á bak. Það má alveg velta því fyrir sér og ég viðurkenni fúslega að það hefði hugsanlega verið hægt að sitja hjá í þessu tilfelli. Við ákváðum hins vegar að vera á móti því að við vildum lýsa yfir stuðningi við þau ferli sem í gangi eru.