145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Nei, það er engin ástæða til þess að færa stjórnsýslu þjóðaröryggis. Í tillögunni sjálfri er hins vegar lagt til að þjóðaröryggisráð verði sett á fót og það verði undir forsæti forsætisráðuneytisins eða forsætisráðherra. Þar er jafnframt lagt til að eitt af fyrstu verkum þjóðaröryggisráðs verði að fara í nýtt áhættumat. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að nokkuð langur tími er frá því að þetta mat var gert, þ.e. frá 2009. Við vorum að sjálfsögðu með ýmis önnur gögn til hliðsjónar þegar þessi tillaga var skrifuð og síðan lögð fram, þ.e. gögn frá Atlantshafsbandalaginu og ýmislegt annað sem nefndin fór meðal annars yfir.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að þjóðaröryggisráð, nái þessi tillaga fram að ganga, muni ráðast í gerð nýs mats. Við ákváðum að rýna ákveðna hluti matsins frá 2009. Við töldum ekki ástæðu til þess að stoppa heldur væri rétt að klára þessa tillögu en leggja jafnframt áherslu á að það yrði ráðist í gerð slíks mats.

Ríkislögreglustjóri hefur á meðan á þessu hefur staðið, eins og fram kom í máli mínu, hækkað áhættumatið varðandi hryðjuverk um einn flokk. Nú er það talið í meðallagi. Það sýnir að á meðan á þessu verki stóð voru menn vakandi yfir þeim breytingum sem kynnu að hafa orðið frá 2009.

Ég ítreka enn og aftur að samkvæmt því mati sem Atlantshafsbandalagið hefur lagt fram er ekki enn sem komið er talin ástæða til þess að hækka áhættumat vegna hernaðarógnar, en að sjálfsögðu er það til skoðunar á hverjum tíma hvaða breytingar kunna að verða varðandi slíkt mat.