145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Ég ætla aðeins að halda áfram. Ástæða fyrir því að ég hef áhyggjur af stjórnsýslu þegar kemur að þjóðaröryggismálum er að hin pólitíska ábyrgð virðist vera óljós. Það er alveg ljóst að nær allar stofnanir sem bera ábyrgð á þjóðaröryggi, borgaralegar stofnanir í okkar skilningi eins og lögregla, landhelgisgæsla, tollgæsla o.fl., heyra undir innanríkisráðuneytið. Það þarf annaðhvort er að breyta því og færa þær undir utanríkisráðuneytið eða færa þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar undir það ráðuneyti sem fer með málefni hinna borgaralegu stofnana sem eiga að fylgja stefnunni. Annað er ávísun á vandræði.

Við skulum reyna að hafa hlutina þannig að saman fari vald til framkvæmda og hin pólitíska ábyrgð. Hún er ekki skýr með þeim hætti sem við ætlum að hafa hana. Ég held að í framtíðinni hljóti hluti af því að marka heildstæða stefnu í þjóðaröryggismálum Íslendinga að felast í að skilgreina stjórnsýsluna að nýju og gera hina pólitísku ábyrgð skýrari. Það skiptir okkur verulegu máli að það sé gert með þessum hætti.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því í lokin hvort hann telji ekki ástæðu til þess að hefja viðræður við bandarísk stjórnvöld um að auka viðbúnað á Íslandi (Forseti hringir.) vegna aukinna umsvifa í Norðurhöfum og/eða hvort slíkar viðræður hafi farið fram.