145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og áður hefur komið fram þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að flytja þessa þingsályktunartillögu. Við tókum hana til umræðu á síðasta vori en ekki vannst tími á þinginu til þess að ljúka meðferð málsins. Hún fékk nokkra umfjöllun á vettvangi utanríkisnefndar þótt þeirri umfjöllun væri ekki lokið þegar halla tók að þinglokum, engu að síður áttu sér stað áhugaverðar umræður á vettvangi nefndarinnar um efni tillögunnar. Án þess að ég ætli að endurtaka umræðuna sem þar átti sér stað eða eyða miklum tíma í að vitna í hana þá er óhætt að segja að almennt hafi verið nokkuð góð samstaða um meginstefnu tillögunnar. Það voru vangaveltur um það hvort einstökum liðum væri gefið nægilega mikið vægi og ég geri ráð fyrir því að sú umræða muni koma aftur upp í meðförum nefndarinnar nú á þessu hausti. Eins veltu menn fyrir sér stjórnsýslunni, þótt ekki lægju fyrir tillögur um breytingar þar að lútandi, þ.e. þjóðaröryggisráðinu og stöðu þess í stjórnkerfinu. Í þriðja lagi veltu menn fyrir sér því hvernig einstökum þáttum var skipað í áhættuflokka, ef svo má segja, þegar verið var að meta áhættu á einstökum sviðum. Allt þetta geri ég ráð fyrir að komi aftur til umfjöllunar í utanríkisnefnd þegar hún tekur þetta mál til meðferðar á komandi dögum.

Um stefnumörkunina almennt vil ég segja að hún endurspeglar auðvitað að nokkru leyti þann breytta veruleika sem við erum í. Staðan er sú að órói á sviði alþjóðamála hefur aukist og það er ljóst að hann hefur áhrif á Ísland. Ef við horfum á tímabilið frá lokum kalda stríðsins þá hafa orðið þau atvik og tíðindi í Evrópu og næsta nágrenni að öryggismál eru meira í fókus en hefur verið um langt skeið. Það hafa átt sér stað breytingar í austurhluta Evrópu sem setja skipan alþjóðamála í annað samhengi en verið hefur. Þá er ég fyrst og fremst að tala um innlimun Rússa á Krímskaga og afskipti þeirra af Austur-Úkraínu þar sem þeir með beinum eða óbeinum hætti hafa stuðlað að uppgangi aðskilnaðarsinna sem eiga í hernaðarátökum við yfirvöld í Úkraínu. Innlimun Krímskaga var auðvitað óvenju gróft dæmi um það þegar fullveldi lands og landamæri sem viðurkennd eru með alþjóðlegum hætti eru virt að vettugi. Þeir atburðir og aukin hernaðaruppbygging af hálfu Rússa hefur vissulega valdið áhyggjum á Vesturlöndum og það er alveg ástæða fyrir okkur að taka það inn í þá umræðu sem á sér stað um þjóðaröryggi.

Um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og víða annars staðar suður og austur af Evrópu er óþarfi að fjalla mikið um að þessu sinni, en ljóst er að það hrikalega ástand sem er fyrir hendi á því svæði hefur áhrif á Evrópu og Vesturlönd á margvíslegan hátt. Eitt er bein hryðjuverkaógn, annað er hinn mikli fjöldi flóttamanna sem streymir frá þeim svæðum til Evrópu. Það er alveg ljóst að þegar við mörkum þjóðaröryggisstefnu þurfum við að horfa á þá þætti og horfa á hlutina í því samhengi. Staðreyndin er sú, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að ástandið í heimshluta okkar er með ýmsum hætti ótryggara en verið hefur um langt skeið.

Það er ljóst að þegar kemur að því að standa vörð um ytra öryggi þjóðarinnar, ef svo má segja, eru aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur við Bandaríkin enn þá lykilþættir. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir það þegar við horfum á landvarnir okkar í hefðbundnum skilningi þeirra orða. Aðrir þættir sem koma til og geta raskað þjóðaröryggi okkar, eins og hryðjuverk og netárásir eða netglæpir af ýmsu tagi, eru frekar skilgreindir sem innanríkismál þótt mörkin séu óljós. Þar er engu að síður um að ræða ógnir sem telja verður til þjóðaröryggismála og nauðsynlegt er að huga að.

Það er gert ágætlega í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir okkur að hafa í huga að þegar kemur að vörnum á þessu sviði verða þau yfirvöld sem hafa þar hlutverki að gegna að hafa yfir að ráða bæði þeim mannafla, tækjabúnaði og þekkingu sem nauðsynleg er til þess að bregðast við hættum af þessu tagi. Það er auðvitað ljóst að löggæslustofnanir hér, ef við tölum um það út frá því, hafa ekki farið varhluta af þeim samdrætti sem verið hefur á umliðnum árum. Það hefur verið reynt að bæta úr því að einhverju leyti en ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að bæta þar vel í. Þá er ég fyrst og fremst að velta fyrir mér stöðu þeirra löggæslustofnana sem hafa hlutverki að gegna frá degi til dags í sambandi við eftirlit, varnir og viðbrögð við ógnum af þessu tagi. Þessar ógnir eru auðvitað mismunandi. Það liggur fyrir að til dæmis netárásir af ýmsu tagi eiga sér stöðugt stað. Viðbúnaður gagnvart þeim þarf því að vera stöðugur. Hryðjuverkaárásir, við Íslendingar höfum sem betur fer verið í skjóli gagnvart þeim fram til þessa, en auðvitað veitir maður því athygli að hryðjuverkaógnin víða í nágrannalöndunum hefur aukist. Í febrúar síðastliðnum mat greiningardeild ríkislögreglustjóra það svo að hryðjuverkaógn hér á landi hefði aukist frá því sem áður var. Nýliðnir atburðir hafa ekki breytt því mati, það hefur ekki verið talið tilefni til að auka viðbúnaðarstig hér á landi vegna þeirra, en auðvitað er þetta eitthvað sem er stöðugt til endurmats.

Hvað sem því líður þurfum við í þeirri umræðu sem á sér stað um þjóðaröryggisstefnu að horfa til þessara þátta. Það hefur verið vitnað til starfs þingmannanefndar sem var að störfum og tillagan er í grunninn byggð á. Sú vinna sem þar fór fram er mjög gott innlegg í þessa umræðu en það verður þó ekki fram hjá því litið að aðstæður í alþjóðamálum, okkar nærumhverfi, hafa breyst töluvert mikið frá því að sú nefnd skilaði af sér. Sama á auðvitað við um það áhættumat sem fór fram á árinu 2009. Aðstæður eru töluvert ólíkar og að einhverju leyti hefur þegar verið brugðist við því í undirbúningi þessarar þingsályktunartillögu. Það er atriði sem hv. utanríkisnefnd þarf að hafa til hliðsjónar þegar hún leggur lokahönd sína á það skjal sem við gerum ráð fyrir að verði þjóðaröryggisstefna samþykkt af Alþingi.