145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að aðstæður hafa að ýmsu leyti breyst á norðurhveli jarðar frá því að skýrslunni sem Valur Ingimundarson prófessor gerði, sem var í reynd upphaf þessa máls alls, var lokið. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þær viðsjár sem hafa sprottið á jaðri Evrópu leiði að hans mati til þess að nauðsynlegt sé að gera nýtt hættumat.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þingmann út í þær áherslur sem eru á loftslagsmálin. Nú held ég að engum dyljist að til langs tíma er mesta váin sem að okkur steðjar einmitt sú sem tengist loftslagsmálum og þess vegna finnst mér það nokkuð umhendis að í þeim tíu tillögugreinum, sem er að finna í þeirri þingsályktunartillögu sem hæstv. ráðherra mælti fyrir rétt áðan, koma orðin loftslagsmál eða loftslagsvandi eða hlýnun jarðar hvergi fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að ef okkur á að takast að halda áfram þeirri sátt sem var mjög tæp á síðasta kjörtímabili þegar við lukum þessu verki sé nauðsynlegt að taka á þessu misvægi millum þess sem var að finna í skilagrein nefndar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og hins sem er að finna í tillögunni. Um þetta urðu, eins og hv. þingmaður gat um í sinni ágætu ræðu, töluverðar umræður í utanríkismálanefnd á síðasta ári.

Ég spyr hv. þingmann, þótt hann sé að vísu, því miður, fjarri góðu gamni og eigi ekki sæti lengur í nefndinni: Telur hann ekki í krafti þekkingar sinnar á baklandi málsins innan nefndarinnar og á málinu almennt að það sé nokkurs virði að reyna að breyta tillögunni til að auka vægi loftslagsmálanna og þar með auka líkurnar á að það takist að halda áfram sáttinni?