145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns um áhættumatið tel ég að full ástæða sé til þess að það gerist með skipulögðum hætti, að áhætta sem steðjar að þjóðaröryggi verði metið með reglulegum hætti. Ég held að tillagan eða samþykkt hennar hljóti að vera ákveðin innleiðing í það verkefni og það verði hlutverk þjóðaröryggisráðs eða sambærilegs apparats að hafa með höndum slíka vinnu. Ég held að þörf sé á því. Auðvitað hefur ákveðið endurmat átt sér stað í aðdraganda þess að þessi tillaga birtist í þinginu, bæði hér innan lands og eins með upplýsingaöflun í okkar helstu bandalags- og nágrannaríkjum, en ég er engu að síður þeirrar skoðunar að full ástæða sé til að svoleiðis mat fari fram fljótlega.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns get ég tekið undir að þau sjónarmið komu mjög sterkt fram í utanríkismálanefnd á síðasta vori að gefa þyrfti loftslagsmálunum meira vægi í tillögunni til að undirstrika mikilvægi þeirra í þessu samhengi, því að það er rétt sem hér hefur verið nefnt að breytingar af völdum loftslagsbreytinga geta haft mjög alvarleg og afdrifarík áhrif á öryggismálastöðu okkar í þessu samhengi.

Ég verð þó að nefna að það er mín skoðun að meginþunginn í stefnumótun á sviði loftslagsmála fer auðvitað fram á öðrum vettvangi og í öðru samhengi en í þessu. Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að þeim málum sé gefið meira vægi í umræðu um þjóðaröryggisstefnu.