145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör.

Hv. þm. Birgir Ármannsson, sá sem fremstur er meðal jafningja innan Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að utanríkismálum, sagði alveg skýrt að hann teldi að gefa ætti loftslagsmálunum skýrt vægi í umræðum um þjóðaröryggismál. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að hann teldi að það væri farsælt fyrir málið í heild að það endurspeglaðist í tillögugreininni.

Sömuleiðis gladdi það mig að hv. þingmaður sagði að vissulega kæmi að því miðað við breyttar aðstæður að gera þyrfti nýtt hættumat fyrir Ísland. Hann sagði hins vegar líka jafn skýrt að hann teldi að það væri skref sem ætti að taka eftir að búið væri að samþykkja þessa tillögu og eftir atvikum ákvæði um þjóðaröryggisráð og það yrði þá hvers þess yfirvalds sem þá væri til þess bært að gera tillögu um slíkt. Það bægði alla vega burt þeim ótta mínum að menn teldu að ekki væri hægt að samþykkja tillöguna fyrr en að gerðu slíku hættumati. Ég ætla þó ekki að halda því fram að hv. þingmaður sé einn af þeim sem stundum reyni að tefja mál. Verð þó að viðurkenna að ósjálfrátt varð mér hugsað til stjórnarskrárnefndarinnar sem nú er að störfum. En hv. þm. Birgir Ármannsson telur málið augljóslega svo mikilvægt að hann vill hafa tímaröðina á þessu tvennu með þeim hætti að nýtt hættumat yrði ekki til þess að tefja vinnslu og samþykkt þessarar tillögu.