145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara til að hafa það skýrt tel ég að utanríkismálanefnd þurfi auðvitað að ræða mat á þeirri hættu sem að okkur steðjar á mismunandi sviðum í meðferð sinni á tillögunni. Formlegt áhættumat tel ég hins vegar að eigi að vera í höndum þjóðaröryggisráðs eða sambærilegs aðila eftir að tillagan hefur verið samþykkt. Ég sé fyrir mér að þar þurfi að koma upp einhverju verklagi, einhverjum viðmiðunum sem byggja á reynslu nágrannaþjóðanna og það þurfi að gerast með formlegum og skipulögðum hætti. Ég sé ekki fyrir mér að það beinlínis eigi sér stað í meðförum utanríkismálanefndar meðan málið er til vinnslu í þinginu.