145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er ánægjulegt að við séum að þokast áleiðis með þjóðaröryggisstefnu. Þjóðaröryggisstefna á að sjálfsögðu í eðli sínu að vera grunnföst, en á sama tíma þess eðlis að hægt sé að bregðast við síbreytilegum veruleika þess að við erum ekki eyland í eiginlegum skilningi, einvörðungu í landfræðilegum skilningi.

Ég var í þessari nefnd á síðasta kjörtímabili sem skilaði af sér þessum grunni. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist nægilega vel tekið tillit til bókunar sem kom fram frá mér og hefur sýnt sig að málið sem ég fjallaði um með bókuninni hefur aukið vægi út af þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarið. Bókunin er svona:

„Einn af hornsteinum lýðræðis grundvallast af getu ríkja til að vernda friðhelgi ríkisstjórna og stjórnsýslu sem og friðhelgi einkalífs borgara ríkisins. Nútímatækni hefur gert yfirvöldum annarra landa það kleift að safna stafrænum gögnum allra Íslendinga í trássi við stjórnarskrá lýðveldisins. Því er ljóst að nauðsynlegt er að íslenska ríkisstjórnin þarf að móta stefnu í samstarfi við alþjóðastofnanir og samtök er sérhæfa sig í að tryggja stafræna friðhelgi þvert á landamæri til að tryggja þjóðaröryggi Íslands.“

Nú hegg ég eftir því í þessari ályktun hæstv. utanríkisráðherra að ekki er nægilega fast að orði kveðið varðandi þetta. Mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson hvort hann hafi eitthvað kynnt sér málið.