145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þetta atriði sérstaklega þá er það er mín skoðun að veita þurfi þessu athygli í meðförum nefndarinnar. Ég held að við þær upplýsingar sem hafa komið fram á allra síðustu árum, um möguleika njósnastofnana til þess að afla upplýsinga, hafi sett ugg að okkur flestum þannig að ég held að þetta sé eitt atriði sem þarf að taka með í reikninginn.

Í stefnumörkun hvað varðar þjóðaröryggi er netöryggi eitt af þeim sviðum sem þarf að veita athygli í auknum mæli og þar hefur orðið gerbylting á síðustu árum. Þar eru ógnirnar af margvíslegum toga. Eitt eru hryðjuverkaárásir eða árásir sem eru ætlaðar til þess að valda tjóni eða upplausn eða einhverju slíku, árásir á mikilvæga innviði eða kerfi sem stjórna innviðum eða annað þess háttar, það er bein glæpastarfsemi sem er ætluð í auðgunarskyni og síðan eru tilviljanakenndar árásir.

En það er þekkt að í sumum tilvikum standa ríki á bak við netárásir til að valda truflunum eða afla upplýsinga. Það hefur sett nokkurn ugg að okkur við þær upplýsingar að vina- og bandalagsþjóðir okkar hafa líka staðið að aðgerðum af því tagi sem, eins og hv. þingmaður nefndi, eru í bága við sjónarmið okkar, í bága við grundvallarreglur um persónufrelsi og friðhelgi einkalífs.